Björninn hafði betur í fyrsta leik

Mynd: Sigurgeir Haraldsson
Mynd: Sigurgeir Haraldsson


Enn einu sinni lauk leik SA og Bjarnarins með eins marks sigri - eins og allir leikir liðanna í vetur. Bjarnarmenn leiða einvígið og eiga heimaleik á fimmtudagskvöldið. 

Leikurinn var í beinni útsendingu á N4 sjónvarpsstöðinni og ef til vill hefur það ásamt stöðugri snjókomu haft þau áhrif að margir Akureyringar hafa ákveðið að sitja í hlýjunni heima í stofu í stað þess að mæta í höllina. Að minnsta kosti virtist stúkan þunnskipuð í upphafi leiks en síðan fjölgaði nokkuð þegar á leið. Með meiri aukakrafti úr stúkunni og stöðugri hvatningu hefði kannski verið hægt að klára leikinn, hver veit. 

Sigurður formaður Sigurðsson opnaði markareikning heimamanna eftir fimmtán mínútna leik og reyndist það eina mark fyrsta leikhluta. 

Seinni hluti annars leikhluta reyndist afdrifaríkur því þá komu þrjú mörk frá Birninum, fyrst frá Daniel Kolar, þá Sergei Zak og síðan skoraði Gunnar Guðmundsson þriðja mark Bjarnarins aðeins 40 sekúndum eftir mark Sergeis.

Snemma í þriðja leikhluta kviknaði aftur von hjá heimamönnum þegar Andri Már Mikaelsson skoraði tvisvar með stuttu millibili, en Daniel Kolar skoraði fjórða mark Bjarnarins. Heimamenn náðu ekki að svara og þurfa nú ef til vill - eins og stundum áður - að fara fjallabaksleið að titlinum. Einvíginu er langt í frá lokið. Lokatölur: SA-Björninn 3-4 (1-0, 0-3, 2-1).

Annar leikur liðanna fer fram í Egilshöll fimmtudagskvöldið 21. mars og hefst kl. 19. Þriðji leikurinn verður svo á Akureyri á laugardag og hefst kl. 17. Bjarnarmenn eiga síðan heimaleik mánudaginn 25. mars og oddaleikurinn (ef þörf verður á honum) fer fram í Skautahöllinni á Akureyri miðvikudagskvöldið 27. mars. Enn er langt í það og fyrsta verkefni er að sækja sigur í Egilshöllina. Það gerðu SA-menn í lokaleik deildarkeppninnar og geta það að sjálfsögðu aftur - þurfa bara að þjappa sér saman og finna leiðir til að bæta það sem þarf eftir þennan fyrsta leik. Reynslan og getan eru fyrir hendi þó svo Bjarnarmenn hafi fjölmennari eða breiðari hóp. Í SA-liðinu eru menn sem á góðum degi geta klárað svona leiki - en best væri að sem flestir ættu góðan dag. Þá þarf ekki að spyrja að leikslokum.

Tapið í kvöld þýðir einfaldlega að SA-menn verða að vinna leik í Egilshöllinni til að ná Íslandsmeistaratitlinum aftur norður. Akureyringar á höfuðborgarsvæðinu eru hvattir til að mæta í Egilshöllina á fimmtudagskvöldið og taka þátt í að ná Íslandsbikarnum aftur heim. 

Mörk/stoðsendingar
SA
Andri Már Mikaelsson 2/0
Sigurður S. Sigurðsson 1/0
Lars Foder 0/1
Sigurður Reynisson 0/1
Refsingar: 10 mínútur
Varin skot: 25 (7+11+7)

Björninn
Daniel Kolar 2/1
Sergeir Zak 1/1
Gunnar Guðmundsson 1/0
Úlfar Jón Andrésson 0/1
Róbert Freyr Pálsson 0/1
Hjörtur Björnsson 0/1
Birkir Árnason 0/1
Matthías Skjöldur Sigurðsson 0/1
Refsingar: 16 mínútur
Varin skot: 29 (9+7+13)

Myndasafn Sigurgeirs Haraldssonar frá leiknum.