Breytingar í starfsmannahaldi

Reynir Sigurðsson á Zamboni. Mynd: Árni Arason
Reynir Sigurðsson á Zamboni. Mynd: Árni Arason


Reynir Sigurðsson hefur hætt störfum í Skautahöllinni og Haraldur Ingólfsson komið í hans stað.

Nú um áramótin hætti Reynir Sigurðsson störfum í Skautahöllinni á Akureyri eftir sjö ára starf. Reynir hóf störf um áramótin 2005-2006 og hefur staðið vaktina síðan mörg kvöld og margar helgar, en hann hefur að auki starfað töluvert fyrir hokkídeild félagsins og verið í aðalstjórn SA frá 2008. Reynir sat í stjórn hokkídeildar 2005-2006 og svo aftur frá 2007. Reynir hóf störf hjá Advania nú um áramótin. Félagið óskar Reyni velfarnaðar á nýjum vettvangi og þakkar honum gott starf í þágu félagsins á undanförnum árum.

Síðastliðinn vetur hóf Haraldur Ingólfsson störf við afleysingar aðra hverja helgi í Skautahöllinni, en hann kemur nú inn í fullt starf í stað Reynis. Haraldur hefur stundað krullu hjá félaginu frá 2002 og unnið ýmis störf í þágu krulluíþróttarinnar. Hann hefur frá því í haust jafnframt séð um að skrifa fréttir af starfi allra deildanna á heimasíðu félagsins.