Karfan er tóm.
Frá Haraldi Ingólfssyni, fyrirliða krullulandsliðsins:
Lið skipað fjórum leikmönnum úr Krulludeild SA hélt utan til Skotlands í september til þátttöku sem landslið Íslands í C-keppni Evrópumótsins í krullu. Þetta voru þeir Jens Kristinn Gíslason, Haraldur Ingólfsson fyrirliði, Sævar Örn Sveinbjörnsson og Sveinn H. Steingrímsson.
C-keppni Evrópumótsins fór nú fram í fyrsta skipti og er til komin vegna fjölgunar þjóða sem stunda þessa íþrótt og hafa gerst aðilar að ECF, Evrópska krullusambandinu.
Fyrirfram voru menn ekki vissir hvaða væntingar væri eðlilegt að gera. Markmiðið var alltaf að ná öðru af tveimur efstu sætunum og tryggja okkur þannig keppnisrétt í B-flokki Evrópumótsins og síðan halda okkur þar. Við fórum þó út með það í huga að við gætum tapað öllum leikjunum, unnið alla leikina eða eitthvað þar á milli. Þegar við hófum keppni og sáum hin liðin spila, sannfærðumst við um að við ættum góðan möguleika á að ná markmiði okkar.
Fyrsti leikurinn var gegn liði Lúxemborgar sem nú sendi aftur lið á Evrópumót eftir nokkurra ára hlé. Segja má að við höfum fengið fljúgandi start á mótinu með því að skora fimm stig strax í fyrstu umferðinni og vinna svo leikinn, 12-2. Góður sigur og sjálfstraustið í lagi, búnir að stimpla okkur inn og láta hin liðin vita að við værum ekki bara mættir til leiks til að vera með.
Annar leikurinn var sá leikur sem liðsmenn töldu fyrirfram að yrði erfiðastur, en hann var gegn Slóvökum. Þar óx okkur ásmegin eftir því sem leið á leikinn og sigruðum að lokum, 6-5. Reyndar fór síðan svo að Slóvakar stóðu uppi sem sigurvegarar mótsins eftir sigur á Hvít-Rússum í úrslitaleik.
Þriðji leikur okkar var gegn Tyrkjum, sem eru ný þjóð í krullu heiminum. Í janúar halda Tyrkir vetrarleika stúdenta og hafa því um nokkurra ára skeið unnið að undirbúningi þess að koma krulluíþróttinni í gang þar í landi, hafa byggt sér krullusvell og þjálfað upp ungt fólk. Liðið var líka mætt til Skotlands tveimur vikum fyrir mótið og æfði af kappi. Við náðum þarna okkar þriðja sigri í jafnmörgum leikjum en tæpara mátti það varla standa, höfðum góða forystu um tíma en sigruðum þó aðeins með einu stigi, 8-7.
Fjórði leikur okkar var líklega sá næstauðveldasti en þá mættum við Serbum og sigruðum nokkuð auðveldlega, 8-5. Eftir þennan leik var ljóst að þrjár þjóðir myndu berjast um tvö efstu sætin sem gáfu keppnisrétt í B-keppninni, Slóvakar, Hvít-Rússar og við. Slóvakar höfðu aðeins tapað fyrir Íslandi og Hvít-Rússar höfðu aðeins tapað fyrir Slóvökum.
Fimmti leikur okkar var einmitt gegn Hvít-Rússum og þar byrjuðum við illa, fengum á okkur fimm stig í fyrstu umferðinni. Við létum það ekki á okkur fá, skoruðum þrjú stig til baka strax í annarri umferð og unnum okkur svo hægt og bítandi inn í leikinn, komumst loks yfir, 9-8, eftir níundu og næstsíðustu umferðina. En það voru Hvít-Rússar sem náðu sigrinum með því að skora tvö stig í lokaumferðinni. Þar með var ljóst að þeir höfðu tryggt sér að minnsta kosti aukaleik um sæti í úrslitum en við urðum að vinna okkar síðasta leik gegn Litháen. Slóvakar urðu einnig að vinna sinn lokaleik til að komast áfram.
Lokaleikur okkar gegn Litháen reyndist jafn og spennandi eins og flestir leikir okkar í mótinu. Um tíma virtumst við vera að ná undirtökunum en náðum ekki að slíta okkur frá keppinautunum. Aftur lentum við svo í svipuðum endalokum og gegn Hvít-Rússum, vorum yfir en fengum á okkur tvö stig í lokaumferðinni og töpuðum leiknum, 7-8.
Þar með var draumurinn úti, Slóvakar og Hvít-Rússar tryggðu sér sæti í úrslitaleiknum og keppnisrétt í B-keppni, hlutu fimm vinninga, en við urðum í þriðja sætinu með fjóra vinninga. Þrátt fyrir allt getum við vel við unað og verið sáttir við ágætan árangur á þessu móti.
Ljóst er að ef Íslendingar ætla að halda í við aðrar Evrópuþjóðir er nauðsynlegt að bæta aðstöðu til iðkunar krulluíþróttarinnar á Akureyri og helst að koma henni aftur í gang syðra einnig. Tvær af þeim þjóðum sem við öttum kappi við í þetta skipti, Tyrkir og Hvít-Rússar, hafa nýlega fengið sínar krulluhallir og æfa því á mun betra svelli og hafa mun fleiri æfingatíma en við. Slóvakar hafa sína krulluhöll, en Lúxemborg, Serbía og Litháen æfa við svipaðar aðstæður og við. Á næsta ári má síðan búast við tveimur nýjum þjóðum í hópinn, Rúmenum og Slóvenum. Vonandi getum við áfram haldið að senda lið út til þátttöku í Evrópumótum, ekki aðeins í karlaflokki því á sama tíma og við hófum keppni í Skotlandi var að ljúka á sama stað Evrópumóti blandaðra liða (tveir karlar og tvær konur í liði) og í kvennaflokki er einnig keppt í A-, B- og C-flokki eins og hjá körlunum. Tækifærin eru því næg ef við höfum aðstöðu, iðkendur og áhuga.
Fjármögnun svona ferðar kostar mikla fyrirhöfn en í lokin langar mig að nefna hér helstu styrkjendur krullulandsliðsins: Verkefnasjóður ÍSÍ, Asham-krullufyrirtækið í Kanada, Líkamsræktarstöðin Bjarg, Krulludeild SA, Akureyrarbær, VISA/VALITOR, Norðurorka, Steypusögun Norðurlands, Sandblástur og málmhúðun og Roðasteinn.