Fjórðu umferð lokið.

Garpar og Mammútar efstir með sex stig eftir fjórðu umferð. Mammútar eiga leik til góða og geta komist einir á toppinn á miðvikudaginn.

Það var hart barist í kvöld á öllum brautum, allt gat gerst fram á síðasta stein í flestum leikjunum.

Svartagengið byrjaði með látum á móti Riddurum og leit út fyrir að þeir ætluðu að malbika Riddarana, en þeir skoruðu 3 og aftur 2 og voru komnir í 5 - 0. Þá settu Riddarar í gír og unnu allar umferðirnar sem eftir voru fyrst 1 svo 2 og aftur 2 og enduðu á 1 og sigruðu leikinn 6 - 5. Þetta var fyrsti sigur Riddara á mótinu.

Svipað var upp hjá Skyttum á móti Üllevål en skyttur skutu Üllevål niður í þremur fyrstu lotunum 2 - 3 og aftur 3 og komnir í 8 - 0 eftir þrjár umferðir.Üllevållar gáfust ekki upp og skoruðu 4 í fjórðu umferð og aftur 2 í næstu og staðan allt í einu 8 - 6 fyrir Skyttum og leikurinn galopinn. En Skyttur létu þetta ekki á sig fá og tóku 1 í síðustu og unnu leikinn 9 - 6.

Garpar byrjuðu betur á móti Fífum í þeirra leik en Garpar skoruðu fyrst 2 og svo 1, en þá komu 1 og 1 hjá Fífum og staðan 3 - 2 fyrir Garpa. Í fimmtu umferð náðu Garpar að setja 3 og koma sér í þægilega stöðu 6 - 2 fyrir síðustu umferð en hana unnu Fífur með 2 og Garpar unnu leikinn 6 - 4. 

Leikur Víkinga og Mammúta var æsispennandi fram á síðasta stein. Mammútar skoruðu 1 og 1 í fyrstu umferðunum og Vikingar skora 2 í þriðju umferð og jafna leikinn. Þá komu 4 hjá Mammútum og staðan 6 - 2 fyrir Mammúta. Víkingar náðu að skora 3 í fimmtu umferð og minnka muninn í 6 - 5 fyrir síðustu umferð. Víkingar áttu innsta stein fyrir síðasta stein Mammúta en Jón Ingi renndi sínum síðasta stein innfyrir og kláraði leikinn. Mammútar unnu 7 - 5. 

Garpar og Mamútar eru efstir með sex stig eftir þessa umferð en Mammútar eiga leik til góða og geta setið einir á toppnum með átta stig með sigri á frestuðum leik við Svartagengið á miðvikudaginn. Vinni Svartagengið komast þeir í hóp þriggja liða með fjögur stig. Úrslitablaðið HÉR