Hugmynda- og stefnumótunarvinna til eflingar á starfsemi Skautafélagsins

Myndir: Ásgrímur Ágústsson
Myndir: Ásgrímur Ágústsson


Að frumkvæði stjórnar Skautafélags Akureyrar er nú hafin hugmyndavinna sem verður vonandi upphafið að auknum krafti í félagsstarfinu og að einhverju leyti grunnur að breytingum til eflingar á allri starfsemi í höllinni.

Í liðinni viku voru um 20 manns úr öllum geirum félagsins boðaðir á fund í Pakkhúsinu þar sem skipulega var leitað svara og hugmynda við fjórum meginspurningum:

1. Hvernig er hægt að bæta rekstur Skautafélagsins/Skautahallarinnar?
2. Hvernig er hægt að fjölga iðkendum?
3. Hvernig er hægt að koma í veg fyrir brottfall?
4. Hvernig getum við bætt samskipti á milli deilda félagsins.

Unnið var í hópum og dregnar fram hugmyndir þátttakenda sem svör við þessum spurningum og síðan völdu þátttakendur hver fyrir sig þær hugmyndir sem viðkomandi leist best á. Farið ver skipulega í gegnum allar fjórar spurningarnar og allar hugmyndir hópanna varðandi þessi viðfangsefni.

Nú er unnið að því að taka saman niðurstöðurnar eftir þennan fund og verður þetta verkefni kynnt á aðalfundi félagsins 23. maí. Við viljum því hvetja félagsmenn í öllum deildum til að mæta vel á aðalfundi sinna deilda og á aðalfund félagsins til að kynna sér málið og taka þátt í umræðum. Þannig getum við hleypt auknu lífi í félagsstarfið. 

Aðalfundur hokkídeildar var í gærkvöldi, en aðalfundir Listhlaupadeildar og Krulludeildar verða annað kvöld, miðvikudagskvöldið 15. maí. Listhlaupið verður í Skautahöllinni, en krullan í Lionssalnum í Skipagötu 14. 

Aðalfundur Skautafélags Akureyrar verður síðan haldinn í fundarsal Skautahallarinnar fimmtudaginn 23. maí kl. 10.00.

Ásgrímur Ágústsson tók nokkrar myndir á þessum fundi. Smellið á myndina hér að neðan til að fara inn í albúm með fleiri myndum.