Ice Cup: Leikir á fimmtudagskvöld


Dregið var til fyrstu umferðar Ice Cup á opnunarhófinu í gærkvöldi.

Leikir kl. 18.00 fimmtudaginn 3. maí
Braut 2: Volcano Rocks - Víkingar
Braut 3: PCC Katla - Íslenski draumurinn
Braut 4: PCC Hekla - Üllevål

Leikir kl. 20.30 fimmtudaginn 3. maí
Braut 2: Fálkar - Mánahlíðarhyskið
Braut 3: Sweepless in Seattle - Skytturnar
Braut 4: Garpar - Svarta gengið
Braut 5: Fífurnar - Mammútar 

Í mótsskránni sem dreift var í opnunarhófinu voru meinlegar villur, en þær koma þó ekki að sök. Smá ruglingur varð í dagsetningum í dagskrá mótsins - allt í einu birtust 6. og 7. maí þar sem átti að standa 4. og 5. maí. Leikir annarrar umferðar hefjast kl. 9.00 og 11.30 föstudaginn 4. maí. Leiktímar og hvaða lið lenda saman ráðast af úrslitum fyrstu umferðar þannig að ekki verður ljóst fyrr en í kvöld að loknum leikjunum hver spilar við hvern, hvar og hvenær.

Þátttakendur eru hvattir til að kynna sér keppnisreglur mótsins vel áður en keppni hefst, og í leiðinni að rifja upp reglur íþróttarinnar. Leikjadagskrá, úrslit, liðin og reglur má einnig sjá í excel-skjali hér.

Hér eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga:

  • Passið að ekki séu óhreinindi á skóm og fatnaði sem geta fallið á brautina.
  • Varist að trufla andstæðinginn, til dæmis með því að standa og tala fyrir aftan eða við hlið þess sem er að fara að senda stein. 
  • Gefið þeim sem er að fara að senda stein gott næði til þess.
  • Gangið aldrei þvert yfir brautina ef hitt liðið er að gera sig klárt til að senda stein.
  • Gott er að temja sér að standa kyrr rétt á meðan leikmaður keppinautanna er að renna sínum steini. Ef þið eruð á leið til baka þegar hann er tilbúinn að senda steininn. Stoppið þá og bíðið þar til hann hefur sleppt steininum og gangið þá til baka.
  • Verið ávallt tilbúin þegar kemur að ykkur. Liðið á ekki að þurfa að bíða á meðan þið takið sólann af skónum eða setjið sleipan sóla undir skóinn. Um leið og umferð endar á fyrsti leikmaður í liðinu sem skoraði að finna stein nr. 1 og gera sig kláran til að hefja nýja umferð. Hinir tveir geta þá raðað upp steinum á meðan, og fyrirliðinn gengur yfir að hinum endanum til að stýra næstu umferð.
  • Gætið þess að aðeins fyrirliði og aðstoðarfyrirliði mega vera aftan við hringinn þegar hitt liðið á leik. Aðrir leikmenn eiga að standa út við hliðarlínu brautar einhvers staðar á brautinni (á svæðinu á milli kassanna). Ef allir fjórir liðsmenn standa aftan við hringinn getur það haft truflandi áhrif á þann sem er að einbeita sér að því að senda stein frá hinum enda brautarinnar. Þeir sem standa aftan við braut eiga að vera kyrrir rétt á meðan leikmaður er að renna sér og senda steininn.
  • Fyrirliði þess liðs sem á leik hefur umráð yfir "húsinu" - þ.e. því svæði sem verið er að senda steininn til. Fyrirliði andstæðinganna á þá að vera fyrir aftan húsið, við spyrnuna og á ekki að þurfa að fara inn í hringinn nema þegar steinar eru komnir þangað og þörf er á að sópa. Gætið þess að fara ekki of fljótt inn í hringinn ef þið búist við að þurfa að sópa, því þá eruð þið komin í sjónlínu fyrirliða liðsins sem er að spila og getið t.d. truflað ákvörðun hans um að sópa eða ekki sópa.
  • Takið ekki óhóflega langan tíma í að íhuga næsta skot. Gott er að miða við að hver umferð taki ekki meira en 14-15 mínútur að meðaltali.