Karfan er tóm.
Stjórn Skautafélags Akureyrar hefur valið Ingvar Þór Jónsson íþróttamann félagsins árið 2013. Ingvar verður því einn af þeim sautján sem til greina koma við val á íþróttamanni Akureyrar.
Ingvar er 34ra ára gamall íshokkíleikmaður, hefur leikið íshokkí frá unga aldri og verið einn af máttarstólpum Skautafélags Akureyrar og Íslenska landsliðsins um árabil.
Hann tók að sér þjálfun karlaliðs Skautafélags Akureyrar á síðastliðnu tímabili, ásamt því að spila með liðinu, og vann bæði deildarmeistara- og Íslandsmeistaratitilinn í frumraun sinni sem þjálfari hjá meistaraflokki. Hann hefur verið einn allra sterkasti varnarmaður landsins í íshokkí um árabil og er mikilvægur hlekkur í þeirri sterku keðju sem skilaði þessum titlum heim til Akureyrar, bæði sem leikmaður og þjálfari.
Ingvar Þór er jafnframt fyrirliði íslenska landsliðsins í íshokkí, sem náði sínum besta árangri til þessa á Heimsmeistaramótinu sem fram fór í Króatíu í apríl, þegar liðið varð í 3. sæti í sínum riðli. Hann hefur leikið alla landsleiki sem karlalandslið Íslands hefur spilað frá því að liðinu var hleypt af stokkunum 1999 (sá eini sem það hefur afrekað) og verið fyrirliði þess í 12 ár.
Ingvar var einnig valinn íshokkímaður ársins 2013 af Íshokkísambandi Íslands og hefur hann nú hlotið þann titil þrisvar sinnum.
Íþróttamenn deilda SA, sem komu til greina við kjör á íþróttamanni félagsins voru, ásamt Ingvari Þór, þau Jónína Margrét Guðbjartsdóttir, Íshokkídeild, Emilía Rós Ómarsdóttir, Listhlaupadeild, Jón Ingi Sigurðsson og Rannveig Jóhannsdóttir, Krulludeild.
Ekki hefur unnist tími til að afhenda þessu góða fólki viðurkenningar frá félaginu, en staður og stund til þess verða ákveðin síðar.