Karfan er tóm.
Þrátt fyrir forföll í röðum Mammúta sökum væntanlegra barneigna sem sagt hefur verið frá hér á vefnum hefur lið frá Íslandi nú verið formlega skráð til leiks í C-keppni Evrópumótsins í krullu sem fram fer í Greenacres í Skotlandi 24.-28. september. Þeir einu sem eftir voru í liði Mammúta af upphaflegum stofnendum liðsins frá 2004, Jón Ingi Sigurðsson og Ólafur Freyr Númason, munu sitja heima í þetta skipti vegna væntanlegra barneigna en félagar þeirra þrír sem hafa spilað með liðinu undanfarna tvo vetur og tóku þátt í EM 2009, þeir Haraldur Ingólfsson, Jens Kristinn Gíslason og Sveinn H. Steingrímsson, ætla að láta slag standa og taka þátt í Evrópumótinu. Riddarinn Sævar Örn Sveinbjörnsson kemur gengur til liðs við þremenningana og er ætlunin að halda utan til keppni með aðeins fjóra leikmenn í sparnaðarskyni.
Velgengni gæti orðið dýr
Staðan sem þessir krullumenn standa frammi fyrir er hins vegar nokkuð skondin því ef þeim gengur vel í C-keppninni í september og liðið nær fyrsta eða öðru sætinu ávinna þeir sér rétt til þátttöku í B-keppninni en sú keppni fer fram aðeins tíu vikum síðar, þ.e. í Champery í Sviss 3.-11. desember. Þá verður Jens ekki lengur tiltækur þar sem hann og kona hans eiga von á barni í nóvember. Fari svo að liðið komist upp úr C-flokki og fari í B-keppnina kemur Kristján Bjarnason inn í liðið í stað Jens.
Krullulandslið Íslands 2010 verður því þannig skipað: Haraldur Ingólfsson, Jens Kristinn Gíslason, Kristján Bjarnason, Sveinn H. Steingrímsson og Sævar Örn Sveinbjörnsson. Fréttir af liðinu verða sagðar hér á vef Krulludeildar og á bloggsíðu sem liðð hefur komið sér upp, krulla-EM2010.blogspot.com.
Liðið vinnur nú að fjármögnun ferðarinnar og leitar fyrirtækja sem eru tilbúin að styðja það með einhverjum hætti. Allar ábendingar og aðstoð í þeim efnum þiggja liðsmenn með þökkum.
Beðið frétta af andstæðingum
Nú bíða menn spenntir eftir fréttum af því hve mörg lið skráðu sig til leiks og hvaða lið það eru. Þau lið sem féllu úr B-flokki í fyrra ásamt Íslandi voru Grikkland, Litháen, Serbía, Slóvakía og Hvíta-Rússland. Auk þeirra má nefna að Tyrkland og Rúmenía eru nýir aðilar að ECF og svo eru nokkrar þjóðir sem gætu hugsanlega tekið þátt en óvíst hvort þar eru lið til staðar, má þar nefna Luxembourg, Liechtenstein og Andorra. Hugsanlegt er þó að hertar reglur um þjóðerni og búsetu landsliðsmanna geti gert Hvít-Rússum og Grikkjum grikk. Til dæmis gæti Íslandsvinurinn Anton Batugin, sem hefur leikið fyrir Hvíta-Rússland, nú verið orðinn ólöglegur með liðinu þar sem hann er Rússi og býr í Moskvu.