Karfan er tóm.
Hvort sem það voru taugarnar eða eitthvað annað þá byrjuðu Garpar illa gegn Víkingum og virtust vera að missa af upplögðu tækifæri til að landa titlinum. Víkingar skoruðu og skoruðu og voru komnir í 5-0 og útlitið ekki gott hjá Görpum - reyndar var staða Garpa þannig að þótt þeir töpuðu leiknum fengju þeir í það minnsta tækifæri til að leika úrslitaleik við Mammúta um Íslandsmeistaratitilinn, þ.e. ef Mammútar myndu sigra Riddara.
Leikur Mammúta og Riddara var jafn og spennandi, Mammútar náðu yfirhöndinni, Riddarar jöfnuðu, Mammútar komust einu stigi yfir í næstsíðustu umferð og Riddarar reyndu hvað þeir gátu að skora tvö stig í lokaumferðinni en lukkan datt Mammúta megin í lokin og þeir sigruðu. Það dugði þeim þó ekki nema til silfurverðlauna og þegar leik Mammúta og Riddara lauk var þegar orðið ljóst að Mammútum tækist ekki að verja Íslandsmeistaratitilinn því leik Garpa og Víkinga var lokið með sigri Garpa - já, ótrúlegt en satt!
Eftir að Garpar lentu 5-0 undir og aðeins tvær umferðir eftir hrukku þeir í gang (eða afstressuðust), skoruðu þrjú stig í næstsíðustu umferðinni og fjögur í þeirri síðustu, unnu semsagt leikinn 7-5. Sigur Mammúta á Riddurum skipti því ekki máli, Garpar héldu efsta sætinu og hampa Íslandsmeistaratitlinum í fyrsta sinn, en Mammútar máttu sjá á eftir bikarnum eftir að hafa haft fastatak á honum í þrjú ár.
Fálkar höfðu þegar tryggt sér bronsverðlaunin, en liðið sat yfir í lokaumferðinni, endaði með sex vinninga.
Liðin þrjú sem kepptu um fjórða sætið, Riddarar, Skytturnar og Víkingar töpuðu öll leikjum sínum í kvöld og enduðu með fjóra vinninga. Miðað við úrslit í innbyrðis viðureignum þessara þriggja liða raðast Riddarar í fjórða sætið, Skytturnar í fimmta og Víkingar í sjötta sæti. Með sigri á Skyttunum í lokaumferðinni komust Fífurnar í þrjá vinninga, en máttu þó sætta sig við sjöunda sætið.
Lokastaðan:
Sæti | Lið | Sigrar | Töp |
1. | Garpar | 11 | 1 |
2. | Mammútar | 10 | 2 |
3. | Fálkar | 6 | 6 |
4. | Riddarar | 4 | 8 |
5. | Skytturnar | 4 | 8 |
6. | Víkingar | 4 | 8 |
7. | Fífurnar | 3 | 9 |
Garpar eru vel að sigrinum komnir, töpuðu aðeins einum leik, gegn Mammútum. Þó svo þetta sé í fyrsta skipti sem Garpar eru Íslandsmeistarar hafa þrír úr liðinu áður unnið titilinn með öðrum liðum. Í liði Garpa eru þeir Hallgrímur Valsson, Ólafur Hreinsson, Kristján Bjarnason, Gunnar H. Jóhannesson og Árni Grétar Árnason. Hallgrímur, Ólafur og Gunnar hafa áður orðið Íslandsmeistarar en Kristján og Árni fagna nú titlinum í fyrsta skipti.
Krulluvefurinn óskar Görpum og öðrum verðlaunahöfum á Íslandsmótinu 2011 til hamingju með árangurinn. Fleiri myndir af verðlaunahöfum má finna í myndasafni hér.