Íslandsmótið í krullu: Aukaleikur um sæti í úrslitum


Í kvöld, mánudagskvöldið 25. mars, mætast Víkingar og Ís-lendingar í aukaleik um sæti í úrslitakeppni Íslandsmótsins í krullu 2013. Úrslitakeppnin sjálf hefst jafnframt með leik tveggja efstu liðanna um sæti í sjálfum úrslitaleiknum.

Þar sem þrjú lið - Skytturnar, Víkingar og Ís-lendingar - urðu jöfn með þrjá vinninga í 3.-5. sæti deildarkeppninnar þarf aukaleik til að skera úr um það hvaða lið dettur út. Skytturnar fara beint í úrslitakeppnina þar sem liðið hafði besta árangur úr skotum að miðju hrings - en jafnt var í innbyrðis viðureignum þessara liða og því gilda skotin. Víkingar og Ís-lendingar leika því aukaleik um það hvort liðið fylgir Skyttunum í úrslitakeppnina. Þar sem Víkingar enduðu ofar eiga þeir val um síðasta stein í leiknum. Sigurlið í leik Víkinga og Ís-lendinga mætir svo Skyttunum í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.