Íslandsmótið í krullu: Garpar komnir í úrslitaleikinn


Garpar tryggðu sér sæti í úrslitaleik Íslandsmótsins með sigri á deildarmeisturum Mammúta í gær. Skytturnar og Mammútar leika í undanúrslitum, en Ís-lendingar fara beint í bronsleikinn.

Með sigrinum eru Garpar komnir í úrslitaleikinn og eru því í fríi næsta mánudag, 15. apríl, þegar undanúrslitin verða leikin. Ís-lendingar töpuðu 3v4 leiknum gegn Skyttunum og eru því einnig í fríi 15. apríl, en fara beint í bronsleikinn mánudaginn 22. apríl.

Deildarmeistarar Mammúta máttu þola tap í kaflaskiptum leik gegn Görpum í gær, 6-9, þar sem Garpar unnu fyrstu tvær umferðirnar, þá Mammútar næstu fjórar og svo Garpar síðustu tvær. Mammútar þurfa því að leika gegn Skyttunum í undanúrslitum um það hvort liðið fer í úrslitaleikinn gegn Görpum.

Eftir jafna byrjun í leik Skyttanna og Ís-lendinga skoruðu Skytturnar fimm og náðu Ís-lendingar ekki að nýta sér möguleika á að koma til baka í næstu umferðum. Skytturnar héldu forystunni og sigruðu að lokum 10-2.

Öll úrslit og tölfræði (excel-skjal).