Íslandsmótið í krullu: Ís-lendingar í úrslitakeppnina


Nú er ljóst hvaða fjögur lið komast í úrslitakeppni Íslandsmótsins í krullu 2013. Í kvöld fór fram aukaleikur milli Víkinga og Ís-lendinga, sem höfnuðu í 4. og 5. sæti deildarkeppninnar. Ís-lendingar höfðu sigur í jöfnum leik, lokatölur urðu 9-5 Ís-lendingum í vil.

Leikurinn í kvöld var jafn frá byrjun, en Ís-lendingar höfðu þó forystuna lengst af. Í lokaumferðinni þurftu Víkingar að skora tvö stig til að jafna því staðan var 7-5 Ís-lendingum í vil, en það tókst ekki heldur bættu Ís-lendingar við tveimur stigum, úrslitin: Víkingar - Íslendingar 5-9.

Úrslitakeppnin fer þannig fram að í fyrstu umferð leika saman liðin sem lentu í 1. og 2. sæti deildarkeppninnar (Mammútar og Garpar). Sigurvegari þeirrar viðureignar fer beint í sjálfan úrslitaleikinn.

Liðin sem lentu í 3. og 4. sæti deildarkeppninnar, Skytturnar og Ís-lendingar, mætast einnig í fyrstu umferðinni. Tapliðið í þeim leik fer beint í leik um bronsverðlaun, en sigurliðið fer í undanúrslitaleik gegn tapliðinu úr leik 1 v 2.

Áætlað er að fyrsta umferð úrslitakeppninnar fari fram mánudagskvöldið 1. apríl (annan í páskum), en þó á eftir að fá staðfestingu allra liða um möguleika á að spila þá. Gangi það eftir verða undanúrslitin mánudagskvöldið 8. apríl og úrslitaleikirnir sjálfir mánudagskvöldið 15. apríl.

Öll úrslit (excel-skjal).