Íslandsmótið í krullu: Mammútar með fullt hús


Mammútar luku deildarkeppni Íslandsmótsins með sigri og unnu þar með alla leiki sína í deildinni. Garpar enduðu í öðru sæti deildarinnar en þrjú lið urðu jöfn með þrjá vinninga og þarf aukaleik til að skera úr um það hvaða lið fara í úrslitakeppnina.

Mammútar, Garpar og Skytturnar eru komin beint inn í úrslitakeppnina, en Víkingar og Ís-lendingar, þurfa að leika aukaleik um það hvort liðið fær fjórða sætið í úrslitakeppninni.

Fyrir lokaumferðina var ljóst að Mammútar eru deildarmeistarar og Garpar yrðu í 2. sæti. Þar fyrir utan áttu öll hin liðin möguleika á að komast í að minnsta kosti aukaleik um sæti í úrslitum. Hins vegar sátu Fífurnar og Ice Hunt eftir þar sem liðin töpuðu sínum leikjum í lokaumferðinni. Skytturnar unnu Ice Hunt og Víkingar unnu Ís-lendinga, sem þýðir að Skytturnar, Víkingar og Ís-lendingar enda öll með þrjá vinninga, jöfn í 3.-5. sæti. Liðin eru einnig jöfn í innbyrðis viðureignum og því raðast þau eftir árangri úr skotum að miðju. Þar höfðu Skytturnar best, voru með meðaltalið 50,2 sentímetra, Víkingar komu næstir með 91,4 sentímetra og síðan Ís-lendingar með 97 sentímetra. Þetta þýðir að Skytturnar fara beint í úrslitakeppnina, en Víkingar og Ís-lendingar leika aukaleik um sæti í úrslitum. Sá leikur fer fram mánudagskvöldið 25. mars.

Líklegt framhald er síðan að liðin í 1. og 2. sæti, Mammútar og Garpar, mætist annað hvort 25. mars eða 1. apríl og að Skytturnar mæti sigurliði úr leik Víkinga og Ís-lendinga mánudagskvöldið 1. apríl (annan í páskum). Ef þetta gengur eftir yrði væntanlega undanúrslitaleikur 8. apríl og svo úrslitaleikirnir sjálfir mánudagskvöldið 15. apríl. Þessar dagsetningar eru þó óstaðfestar.

Úrslit leikja í 7. umferðinni:
Fífurnar - Mammútar 4-10
Ice Hunt - Skytturnar 7-8
Víkingar - Ís-lendingar 7-5.

Lokastaða:
1. Mammútar = 6 vinningar
2. Garpar = 4 vinningar
3. Skytturnar = 3 vinningar
4. Víkingar = 3 vinningar
5. Ís-lendingar = 3 vinningar
6. Ice Hunt = 1 vinningur
7. Fífurnar = 1 vinningur

Öll úrslit og tölfræði (excel-skjal)