Karfan er tóm.
Morgunleikirnir voru báðir spennandi og buðu liðin upp á ágætis skemmtun fyrir áhorfendur. Mammútar náðu strax þriggja stiga forskoti á Garpa í fyrstu umferðinni en Garpar skoruðu tvö stig strax í annarri. Í næstu tveimur umferðunum skoruðu liðin eitt stig hvort en líklega var það fimmta umferðin sem réði einna helst úrslitum í leiknum. Garpar voru þá komnir í ágætis stöðu en urðu fyrir því óláni að skjóta steini andstæðingana inn. Mammútar náðu að verja þann stein og gott betur, skoruðu tvö stig og komust í 6-3. Í lokaumferðinni munaði minnstu að Görpum tækist að jafna. Þeir voru með þrjá steina inni þegar Mammútar áttu sinn síðasta stein en Jón Ingi, fyrirliði Mammúta, gerði það sem gera þurfti, tók út innsta stein Garpanna. Görpum mistókst að svara fyrir sig og náðu "aðeins" tveimur stigum í lokaumferðinni og úrslitin því 6-5 Mammútum í vil.
Eftir að Norðan 12 skoraði eitt stig í fyrstu umferðinni tóku Víkingar forystuna með því að skora þrjú stig í þeirri næstu og stálu svo einu til viðbótar í þeirri þriðju. Norðan 12 náði strax tveimur stigum til baka og um tíma var útlit fyrir að liðið kæmist yfir með því að skora vel í næstsíðustu umferðinni. Víkingum tókst þó að minnka skorið niður í eitt stig þannig að þegar fimmta umferðin hófst var staðan 4-4 og Víkingar með síðasta stein í lokaumferðinni. Um tíma leit út fyrir að Norðan 12 myndi skora stigið sem skipti máli. Liðið hafði innsta stein og nokkuð margir steinar frá báðum liðum komnir í vörnina. Gísla, fyrirliða Víkinga, tókst að bjarga málunum með því að skjóta í stein sem fór í annan stein sem fór í innsta steininn. Þar með áttu Víkingar skorsteininn og Norðan 12 tókst ekki að ná honum út. Úrslitin því 5-4 Víkingum í vil.
Þessi úrslit þýða að úrslit leikjanna í lokaumferðinni skipta engu máli. Nú þegar er ljóst að Mammútar og Víkingar leika til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn en Garpar og Norðan 12 leika um bronsið. Var því ákveðið að breyta keppnisformi Íslandsmótsins í miðri úrslitakeppni og sleppa lokaumferðinni en þess í stað verða úrslitaleikirnir spilaðir kl. 11:00. Engir leikir verða því kl. 18:30 eins og auglýst hafði verið, úrslitaleikirnir núna kl. 11:00.
Úrslit leikja í excel-skjali hér.