Íslandsmótið í krullu: Hjónaslagur í 4. umferðinni


Fjórða umferð Íslandsmótsins var spiluð í gærkvöldi. Mammútar og Garpar með sigra.

Leikir gærkvöldsins voru báðir jafnir og spennandi. Mammútar sigruðu Ís-lendinga og Garpar sigruðu Skytturnar. Mammútar hafa nú unnið alla fjóra leiki sína í mótinu og eru öruggir með að minnsta kosti aukaleik um sæti í úrslitakeppninni. Garpar eru einnig líklegir, hafa þrjá vinninga, en tölfræðilega gæti þurft fjóra vinninga til að komast í úrslitin. Ís-lendingar koma næstir með tvo vinninga, þá Fífurnar og Víkingar með einn vinning.

Hjónaslagur
Það bar meðal annars til tíðinda í leikjum gærkvöldsins að í viðureign Mammúta og Ís-lendinga mættust tvenn hjón, þ.e. karlarnir (Sveinn H. Steingrímsson og Jón Ingi Sigurðsson) voru í liði Mammúta, en konurnar (Elísabet Inga Ásgrímsdóttir og Hugrún Ósk Ágústsdóttir) í liði Ís-lendinga. Karlaliðið hafði sigur eftir jafnan og spennandi leik. 

Aukaleikir ef þarf
Í því sambandi er einmitt rétt að minna á að fjögur efstu liðin fara í úrslitakeppni, en verði lið jöfn að vinningum í sætum sem gefa þátttökurétt í úrslitakeppninni verða aukaleikir (eða leikur) um það hvaða lið komast í úrslitakeppnina. Vinningafjöldi, innbyrðis viðureignir og meðaltal úr skotum að miðju ráða röð liðanna, en lið missir þó ekki af sæti í úrslitakeppninni nema með því að tapa aukaleik(jum) ef lið eru jöfn að vinningum.

Úrslit 4. umferðar
Ís-lendingar - Mammútar 3-5
Skytturnar - Garpar 6-7
Leik Ice Hunt og Fífanna var frestað og verður hann spilaður mánudagskvöldið 4. mars.

Fimmta umferð fer fram mánudagskvöldið 25. febrúar:
1: Garpar - Ís-lendingar
2: Fífurnar - Skytturnar
3: Víkingar - Ice Hunt
Ísumsjón: Ís-lendingar, Skytturnar, Ice Hunt

Úrslit og leikjadagskrá (excel-skjal)