Íslandsmótið í krullu: Úrslitakeppnin hefst í kvöld

Mynd: Sigurgeir Haraldsson
Mynd: Sigurgeir Haraldsson


Fyrsta umferð úrslitakeppni Íslandsmótsins í krullu verður spiluð í kvöld, mánudagskvöldið 10. mars. Þá mætast Garpar og Mammútar annars vegar og Ice Hunt og Freyjur hins vegar.

Garpar og Mammútar spila á braut 1 og hafa Garpar val um síðasta stein þar sem þeir urðu deildarmeistarar á dögunum. Á móti hafa Mammútar val um lit. Sigurliðið fer síðan beint í úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn, en taplið fer í undanúrslit gegn sigurliði hins leiksins.

Á braut 2 mætast Ice Hunt og Freyjur. Þar hafa Ice Hunt val um síðasta stein þar sem þeir náðu 3. sætinu í deildarkeppninni. Taplið í þessum leik fer beint í bronsleikinn, en sigurliðið fer í undanúrslit.

Stefnt er að því að spila undanúrslitaleikinn mánudagskvöldið 24. mars, en hlé verður gert á mótinu mánudaginn 17. mars þar sem þá fáum við starfsmannahóp í krullukynningu.

Ekki hefur verið ákveðið endanlega hvort úrslitaleikirnir fara fram mánudagskvöldið 31. mars eða einhvern laugardaginn í apríl.