Karfan er tóm.
Jóhann Már Leifsson er íshokkímaður ársins 2014 hjá Skautafélagi Akureyrar. Jóhann fékk verðlaunin afhent í sérstakri viðhöfn síðastliðinn laugardag. Þá var einnig heiðruð íshokkíkona Skautafélags Akureyrar, Linda brá Sveinsdóttir en hún var á dögunum einnig valinn íshokkíkona ársins hjá Íshokkísambandi Íslands.
Jóhann er fyrirliði karlaliðs Skautafélags Akureyrar og hefur leitt liðið til sigurs síðastliðin tvö tímabil. Hann er fæddur árið 1993 og hóf að leika íshokkí 3 ára gamall. Jóhann spilaði fyrsta meistaraflokks leik sinn 14 ára gamall og var orðinn fastamaður í liði Víkinga 15 ára gamall. Hann spilaði erlendis tímabilið 2011-2012 með Niagara Fury í CJHL deildinni í Kanada. Jóhann hefur einnig leikið með öllum landsliðum Íslands og var lykilmaður í karlalandsliði Íslands sem náði sínum besta árangri á árinu þegar það náði öðru sæti í 2. deild. Jóhann hefur unnið 6 Íslandsmeistaratitla í meistaraflokki með Skautafélagi Akureyrar.
Jóhann er mikill leiðtogi og góð fyrirmynd fyrir alla unga íshokkíleikmenn. Hann hefur verið mjög virkur í starfi Skautafélagsins og hefur til að mynda þjálfað yngri flokka um nokkurra ára skeið. Jóhann kemur úr mikilli íshokkífjölskyldu en bróðir hans Hilmar leikur einnig með Víkingum og elsti bróðirinn Sæmundur lék í marki Víkinga um margra ára skeið. Leifur faðir Jóhanns er tækjastjóri Víkinga og móðir hans Ásdís sat í stjórn Íshokkídeildarinnar til fjölda ára.
Skautafélag Akureyrar óskar Jóhanni til hamingju með nafnbótina.