Krulla: Íslandsmótið hefst mánudagskvöldið 28. janúar (uppfærð frétt)


Íslandsmótið í krullu hefst mánudagskvöldið 28. janúar og verður spilað eingöngu á mánudagskvöldum. Sjö lið eru skráð til leiks og leika þau einfalda umferð, allir við alla, en fjögur þeirra fara síðan í úrslitakeppni. Endanleg ákvörðun um tímasetningu úrslitakeppninnar hefur ekki verið tekin.

Dregið verður um töfluröð fyrir leikina á mánudagskvöldið og er krullufólk því beðið um að mæta tímanlega til dráttarins og að auki væri gott að fá 1-2 frá hverju liði til að undirbúa svellið. Þar sem liðin eru sjö mun eitt liðið augljóslega þurfa að mæta en bíta síðan í það súra epli að sitja yfir.

Leiðrétt frá fyrstu birtingu: Leikdagar verða 28. janúar, 4., 11., 18. og 25. febrúar og 11. og 18. mars. Mánudagskvöldið 4. mars er ætlað fyrir frestaða leiki ef þörf er á. (Í fyrri frétt voru bara tilteknir sex leikdagar, en þar sem liðin eru sjö þarf sjö umferðir til að klára mótið, hvert lið leikur sex leiki og situr einu sinni hjá.)

Þátttökugjald er 7.000 krónur á lið og greiðist í einu lagi við skráningu. Bankareikningur er 0302-26-006496, kt. 301050-2599. Einnig má greiða gjaldið beint til Ágústs Hilmarssonar, gjaldkera Krullunefndar ÍSÍ. Eindagi greiðslu er 28. febrúar. Hafi lið ekki greitt þátttökugjald á eindaga er keppni þess þar með lokið og árangur þess strikast út úr keppninni. Jafnframt missa allir leikmenn liðsins þátttökurétt í næsta Íslandsmóti.

Ýmislegt: Athygli er vakin á því að allir leikir verða átta umferðir að lengd. Jafntefli eru ekki leyfð og því leikin aukaumferð ef jafnt er að loknum átta umferðum. Upphitun er tímasett eins og áður, fjórar mínútur á hvort lið. Að lokinni upphitun tekur lið skot að miðju og ræður árangur úr skotinu hvort liðið hefur val um síðasta stein. Jafnframt getur meðaltal úr skotum að miðju (að slepptu hæsta gildi hvers liðs) ráðið röð liða sem enda jöfn að vinningum og eru jöfn í innbyrðis viðureignum. Ef lið eru hins vegar jöfn að vinningum í sæti/sætum sem gefa þátttökurétt í úrslitakeppninni verður skorið úr því með aukaleik(jum) hvaða lið fer í úrslitakeppnina, sbr. reglur WCF um "tie-breakers".

Að öðru leyti er vísað í mótareglur Krulludeildar og Krullureglur Alþjóða Krullusambandsins, WCF. Krullufólk er hvatt til að kynna sér og læra krullureglurnar.

Liðin sem skráð eru til leiks (vinsamlega sendið inn leiðréttingar ef leikmannalistar eru ekki réttir):
Fífurnar - Björn Sigmundsson, Heiðdís B. Karlsdóttir, Jón Grétar Rögnvaldsson og Svanfríður Sigurðardóttir.
Garpar - Árni Grétar Árnason, Gunnar H. Jóhannesson, Hallgrímur Valsson, Kristján Bjarnason og Ólafur Hreinsson.
Ice Hunt - Davíð Valsson, Kristján Sævar Þorkelsson, Rúnar Steingrímsson og Sævar Örn Sveinbjörnsson. 
Ís-lendingar- Elísabet Inga Ásgrímsdóttir, Haraldur Ingólfsson, Hugrún Ósk Ágústsdóttir, Linda Hafdal og Rannveig Jóhannsdóttir.
Mammútar- Jens Kristinn Gíslason, Jón Ingi Sigurðsson, Ólafur Freyr Númason, Ragnar Jón Ragnarsson og Sveinn H. Steingrímsson.
Skytturnar- Ágúst Hilmarsson, Árni Ingólfsson, Jón S. Hansen, Sigurgeir Haraldsson.
Víkingar- Brynjólfur Magnússon, Gísli Kristinsson, Jóhann Björgvinsson og Sigfús Sigfússon.