Karfan er tóm.
Jens Kristinn Gíslason er krullumaður ársins 2010. Þetta er niðurstaða kosningar á meðal krullufólks. Kosningin fór þannig fram að þeir sem kusu völdu þrjá kandídata og röðuðu þeim í 1.-3. sæti. Þetta er í fyrsta skipti sem krullumaður ársins er valinn með þessum hætti, þ.e. í almennri kosningu meðal iðkenda.
Alls tók 21 þátt í kosningunni og hlaut Jens afgerandi kosningu. Jens er fyrirmyndar íþróttamaður, er í góðu formi og þekktur fyrir yfirvegun, nákvæmni, vandvirkni og samviskusemi. Hann leggur sig ávallt allan fram á æfingum og í keppni og miðar alltaf að því að gera betur. Hann hefur verið í fremstu röð krullufólks um nokkurra ára skeið. Eftir að hafa stýrt eigin liði í nokkur ár gekk hann til liðs við Mammúta haustið 2008 og gegnir þar mikilvægu hlutverki.
Með Mammútum vann Jens þrjú mót í upphafi árs, Janúarmótið, deildarkeppni Íslandsmótsins og svo úrslitakeppni Íslandsmótsins. Á alþjóðlega mótinu Ice Cup, sem Krulludeild SA heldur á hverju vori, gekk Jens til liðs við þrjá rússneska keppendur og vann til bronsverðlauna á mótinu. Jens gegndi lykilhlutverki í landsliði Íslands í krullu sem vann fjóra leiki af sex í C-keppni Evrópumótsins í september og endaði þar í þriðja sæti.
Jens er vel að þessari nafnbót kominn enda er hann krullufólki til sóma og góður fulltrúi þess innan lands sem utan.
Krulluvefurinn óskar Jens til hamingju með þessa viðurkenningu.
Þess má og til gamans geta að bróðir Jens, Jón Benedikt Gíslason, var valinn íshokkímaður ársins 2010 og faðir þeirra, Gísli Kristinsson, var valinn krullumaður ársins 2004 þegar sú viðurkenning var veitt í fyrsta skipti.