Kvennalandsliðið á faraldsfæti

Mynd: Elvar Freyr Pálsson
Mynd: Elvar Freyr Pálsson


Nú þegar meirihluti Íslendinga er í fríi, slakar á og nýtur útiverunnar og góða veðursins hafa stelpurnar í hokkílandsliðinu verið á fullu við æfingar í Skautahöllinni á Akureyri. Áhugasamir geta létt undir með landsliðinu með fjárframlögum.
 
Framundan er Spánarferð og þátttaka í Heimsmeistaramóti. Liðið er í 2. deild B og etur kappi við Suður-Kóreu, Suður-Afríku, Spán, Belgíu og Króatíu. Keppnin fer fram í Puigcerda á Spáni. Allar upplýsingar um mótið, leikjadagskrá og síðan úrslit og tölfræði þegar þar að kemur má nálgast á heimasíðu mótshaldara.

Meirihlutinn frá SA
Af 19 leikmönnum eru 13 úr Skautafélagi Akureyrar, fjórar úr Birninum og tvær sem leika með erlendum félögum en koma báðar upphaflega úr SA. Það eru þær Þorbjörg Eva Geirsdóttir sem leikur með Sparta Sarpsborg í Noregi og Guðrún Marín Viðarsdóttir sem lék í vetur með Lukko Rauma í Finnlandi.

Fulltrúar Akureyar eru jafnframt fjölmennir í starfsliðinu sem fylgir hópnum. Fararstjóri er Margrét Ólafsdóttir, liðsstjóri er María Stefánsdóttir, sjúkraþjálfari er Tinna Stefánsdóttir, allar frá Akureyri. Landsliðsþjálfari er hinn danski Lars Foder, leikmaður karlaliðs SA, og honum til aðstoðar er Hulda Sigurðardóttir, reyndar búsett rétt utan Akureyrar, en nátengd Skautafélagi Akureyrar. Búnaðarstjóri er Ingibjörg Hjartardóttir.

Landsliðshópurinn er þannig skipaður:
Anna Sonja Ágústsdóttir, SA
Arndís Eggerz Sigurðardóttir, SA
Birna Baldursdóttir, SA
Elva Hjálmarsdóttir, Birninum
Guðlaug Ingibjörg Þorsteinsdóttir, SA
Guðrún Blöndal, SA
Guðrún Marín Viðarsdóttir, Rukko Lauma
Hrund Einarsdóttir Thorlacius, SA
Íris Hafberg, SA
Jónína Guðbjartsdóttir, SA
Katrín Ryan, SA
Kristín Ingadóttir, Birninum
Lilja Sigfúsdóttir, Birninum
Sarah Shantz-Smiley, SA
Silja Rún Gunnlaugsdóttir, SA
Sólveig Gærdbo Smáradóttir, SA
Steinunn Erla Sigurgeirsdóttir, Birninum
Thelma María Guðmundsdóttir, SA
Þorbjörg Eva Geirsdóttir, Sparta Sarpsborg

Stefnt að verðlaunasæti
Liðið stefnir klárlega að verðlaunasæti. Fyrsti leikur liðsins, gegn Suður-Afríku á annan í páskum er mikilvægur í því sambandi, bæði til að láta önnur lið vita að við erum komin til leiks og að sjálfsögðu til að ná í stigin sem í boði eru. Lars Foder landsliðsþjálfari á von á því að Korea og Króatía verði erfiðustu andstæðingarnir. Í síðustu keppni var jafnt í leik Íslands og Kóreu, en Kórea vann í framleningu. Króatíska liðið var að koma niður um deild.

Leikjadagskrá íslenska liðsins (íslenskur tími)
Mánudagur 1. apríl kl. 11.00: Ísland - Suður-Afríka
Miðvikudagur 3. apríl kl. 11.00: Ísland - Króatía
Fimmtudagur 4. apríl kl. 14.30: Ísland - Kórea
Laugardagur 6. apríl kl. 18.00: Ísland - Spánn
Sunnudagur 7. apríl kl. 14.30: Ísland - Belgía

Liðið leggur af stað frá Akureyri núna síðdegis, gistir í Keflavík í nótt og heldur utan í bítið á morgun, laugardaginn 30. mars. Flogið verður til London og svo áfram til Barcelona síðdegis sama dag. Mótinu líkur sunnudaginn 7. apríl og er heimkoma áætluð undir miðnættið mánudaginn 8. apríl.

Ísland sendi kvennalandslið í fyrsta skipti til keppni í 3. deild Heimsmeistarakeppni IIHF vorið 2005 á Nýja Sjálandi. HM í kvennaflokki er ekki haldið þau ár sem vetrarólympíuleikar fara fram (2006 og 2010). Liðið lék í fjórðu deild 2007 og 2008, en þá unnu þær mótið og færðust upp í þriðju deild. Mótið 2009 féll niður þar sem engin þjóð fékkst til að halda mótið það ár. Árið 2011 var mótið haldið í Reykjavík og endaði liði í 3. sæti, og svo 4. sæti í Suður-Kóreu í fyrra.

Þú getur stutt við stelpurnar okkar!
Að vera í landsliðinu í íshokkí er í raun meiriháttar mál því íþróttin býr ekki við jafn sterkan fjárhag eða öfluga bakhjarla og knattspyrnan eða handboltinn, svo dæmi séu tekin. Stelpurnar í landsliðinu hafa sjálfar staðið í ströngu við fjáröflun og greiða í raun hluta af kostnaðinum sjálfar úr eigin vasa - eða reyna með ýmsu móti að safna sér upp í þann kostnað.

Hafir þú áhuga á að styrkja kvennalandsliðið í íshokkí geturðu keypt bol af stelpunum (m.a. til sölu í Skautahöllinni á Akureyri) eða einfaldlega lagt inn á reikning til að létta undir með stelpunum má millifæra inn á reikning Íshokkísambands Íslands (setja "kvennalandsliðið" í skýringu): Reikn. 0101-26-560895, kennitala 560895-2329.

Eftir æfinguna á skírdag fengu stelpurnar páskaegg að gjöf og tók Elvar Freyr Pálsson meðfylgjandi mynd við það tækifæri.

Sasport óskar stelpunum okkar góðrar ferðar, góðrar skemmtunar og frábærra úrslita.