Karfan er tóm.
Mammútar urðu í gær Íslandsmeistarar í krullu í fimmta sinn, en þetta er í þrettánda sinn sem keppt er um titilinn.
Í úrslitaleiknum áttust við Garpar, sem urðu á dögunum deildarmeistarar, og Mammútar sem urðu í öðru sæti deildarkeppninnar. Leikur liðanna var nokkuð sveiflukenndur, en þó spennandi og jafn þegar upp var staðið. Garpar náðu þriggja stiga forystu í fyrstu umferð, en Mammútar svöruðu með fjórum stigum í annarri umferð. Garpar jöfnuðu í 4-4, en Mammútar komust í 5-4 og stálu svo tveimur stigum í fimmtu umferðinni, staðan orðin 7-4 þegar aðeins þrjár umferðir voru eftir. En Garpar náðu að snúa því við, skoruðu fjögur stig í sjöttu umferðinni og eiginlega með pálmann í höndunum því Mammútum tókst aðeins að skora eitt í næstsíðustu umferðinni og jafna leikinn í 8-8. Garpar höfðu því síðasta stein í lokaumferðinni, en það dugði þeim hins vegar ekki. Mammútar stálu aftur tveimur stigum og sigruðu. Lokatölur urðu 10-8, Mammútum í vil.
Mammútar hafa fimm sinnum orðið Íslandsmeistarar, fyrst 2008. Í liði Mammúta eru þeir Jón Ingi Sigurðsson, Jens Kristinn Gíslason, Ólafur Freyr Númason, Sveinn H. Steingrímsson og Sigurður Ingi Steindórsson.
Í leiknum um bronsverðlaun áttust einnig við tvö lið úr röðum Krulludeildar Skautafélags Akureyrar, Ice Hunt og Freyjur. Ice Hunt hafði betur, 10-1.
Öll úrslit á Íslandsmótinu (deildarkeppni og úrslitakeppni) - excel-skjal.
Blað brotið í krullusögunni
Fyrr í vetur braut Sjónvarpið blað í íþróttasögunni þegar það sýndi - í fyrsta skipti á Íslandi - beint frá krulluleikjum á Ólympíuleikunum. Og í gærkvöldi braut Krulludeild SA, í samstarfi við Reyni Sigurðsson, og sendi beint út á netinu frá úrslitaleikjunum. Er þetta í fyrsta skipti sem sent er beint út frá krulluleikjum hér á landi.
Upptaka frá leikjunum verður aðgengileg á netinu innan tíðar á slóðinni krulla.tv. Krullufólk sem vill eignast leikinn getur haft samband við formann og fengið afrit - haralduringolfsson@gmail.com, s. 8242778. Fyrst er hér stutt símamyndband frá verðlaunaafhendingunni.
Vonandi verður framhald á svona útsendingum og er í skoðun að senda beint út frá Ice Cup í byrjun maí, annars vegar allan tímann með víðri mynd án þess að manna myndavélarnar og hins vegar að senda út úrslitaleiki mótsins.