Meistaraflokkar SA hefja keppnistímabilið á laugardag

Meistaraflokkar SA karla og kvenna hefja bæði leik í deildarkeppninni á laugardag þegar liðin ferðast suður og leika bak í bak leiki við Fjölni í Egilshöll. Mikil eftirvænting er fyrir fyrstu leikina í deildarkeppninni og fyrir því hvernig liðin koma úr undirbúningstímabilinu sem hefur staðið yfir frá í byrjun ágúst. Liðin okkar bæði eru vel mönnuð frá síðasta tímabili en þó með nokkrum leikmannabreytingum.

Fyrirliði kvennaliðsins á síðasta tímabili, Ragnhildur Kjartansdóttir, er flutt suður og leikur með SR í vetur. Þá er María Eiríksdóttir einnig farin frá liðinu til Karlskrona HK í Svíþjóð. Fyrirliði SA liðsins frá þar síðasta tímabili, Herborg Geirsdóttir, er komin aftur heim en hún lék með Rögle BK í Svíþjóð á síðasta tímabili og ljóst að heimkoma hennar eykur að því minnsta sóknarþunga liðsins. Karlaliðið hefur misst Arnar Kristjánsson sem hefur gengið til liðs við ungmennaliðs EJ Kassel í Þýskalandi og þá hefur flutti landsliðsmarkvörðurinn Jakob Jóhannesson suður í Háskólanám. Landsliðs- sóknarmaðurinn Ólafur Björgvinsson er komin aftur heim eftir tveggja ára dvöl í Svíþjóð og þá hafa einnig bæst við Kanadíski markvörðurinn Tyler Szturm og Slóvakíski sóknarmaðurinn Marek Vybostok.

Kanadamaðurinn Sheldon Reasbeck er nýr þjálfari karla- og kvennaliðs SA en hann hefur unnið hörðum höndum að koma sínu handbragði á liðin á undarförnum dögum. Sheldon hefur þó aðeins haft 2 vikur til þessa svo áherslubreytingar verða eflaust áþreifanlegri eftir því sem líður á tímabilið. Atli Þór Sveinsson verður áfram í þjálfarateymi kvennaliðsins en hann hefur sannað sig í því starfi og einbeittir sér áfram að varnarmönnum liðsins. Þjálfarateymi karlaliðsins hefur heldur betur fengið styrkingu því Ingvar Þór Jónsson landsliðsfyrirliði samþykkti á dögunum að koma inn í þjálfarateymið. Ingvar kemur með ómetanlega reynslu bæði sem leikmaður og þjálfari sem verður eflaust dýrmæt fyrir liðið.

Nýtt lið tekur þátt í karladeildinni í vetur en það er Skautafélag Hafnarfjarðar sem stofnað var á dögunum. Stofnun félagsins og þátttaka í karladeildinni er metnaðarfullt af þeirra hálfu og vonandi vísir að eflingu skautaíþrótta í því ágæta bæjarfélagi. Hafnfirðingar hafa verið duglegir að sækja í sportið út fyrir sitt bæjarfélag í gegnum tíðina og eiga því þrátt fyrir aðstöðuleysi merkilega marga mjög öfluga íshokkíleikmenn. Önnur nýjung í ár er bak í bak fyrirkomulag á leikjum meistaraflokka sem var áður undantekning en verður normið á komandi tímabili sem þýðir að bæði útileikir og heimaleikir liðanna falla oftar á sama dag og lenda þá flestir heimaleikja liðanna okkar á laugardegi en færri í miðri viku.

Fyrstu heimaleikir beggja liða verða þá laugardaginn 28. september. Heimaleikjaumgjörðin verður enn öflugri í vetur og veitingaframboð aukið og selt á fleiri stöðum í höllinni. Á næstu dögum hefst sala ársmiða þar sem boðið verður uppá nýjar miðatýpur svo allir ættu að geta fundið kort við hæfi og gert góð kaup. Ársmiðahafar fá aðgang að nýrri betri stofu fyrir leik og í leikhléum en þar inni verður til dæmis boðið uppá möguleika á að kaupa sitt eigið áhorfendasæti á besta stað inni í betri stofunni en það mun fylgja Gullkortinu. Ársmiðasalan fer af stað á mánudag 16. september inná Stubb.

Það er stórskemmtilegt íshokkítímabil fram undan og við vonumst til þess að fólk fylkist á fyrstu leiki okkar liða í Egilshöll á laugardag en að öðrum kosti verður hægt að horfa á leikina í beinni útsendingu á ÍHÍ TV. Kvennaliðið á fyrri leikinn gegn Fjölni á laugardag í Egilshöll en sá leikur hefst kl. 16:45 og Karlalið SA - Víkingar mætir svo Fjölni kl. 19:30 á sama stað.