Mikilvæg stig í hús hjá Víkingum

Josh og Ólafur Björnsson kljást. Mynd: Elvar Páls
Josh og Ólafur Björnsson kljást. Mynd: Elvar Páls

Þetta var mikilvægur sigur fyrir Víkinga eftir slæma byrjun á Íslandsmótinu eftir tap fyrir bæði Birninum og SR í fyrstu leikjum.  Fyrsta lotan var markalaus en Víkingar sköpuðu sér fleiri færi en Bjarnarmenn vörðust vel með nokkur ný andlit í vörninni.  Norðlensku tvíburaturnarnir af sökkulangskyninu, þeir Sigurður og Birkir Árnasynir, stóðu vaktina í vörninni auk þess sem Ríkharður Eiríkur Tahtinen hefur dregið fram skautana að nýju.  Ríkharður spilaði síðasta með SR fyrir um 7 árum síðan en hefur síðan þjálfað bæði SR og karlalandsliðið, en þjálfar nú kvennalið Bjarnarins og kvennalandsliðið.  Birkir kom heim frá Danmörku fyrr á þessu ári en Sigurður spilaði með Jötnunum í fyrra.

 

Í 2. lotu náðu Víkingar að bæta við þremur mörkum án þess að gestirnir næðu að svara fyrir sig.  Tvö fyrstu mörkin komu þegar Víkingar nýttu sér liðsmun eftir brottrekstra Bjarnarmanna, en þar voru á ferðinni Josh Gribben og Lars Foder.  Þriðja markið átti svo Josh eftir mikla pressu Víkinga.

 

Í þriðju lotu datt leikur Víkinga aðeins niður á meðan Bjarnarmenn bættu í og minnkuðu muninn í 3 - 2 og allt einu var mikil spenna hlaupin í leikinn.  Fyrra markið skoraði Hjörtu Geir eftir að hafa stolið pekkinum af Víkingum í "power play" en seinna markið skoraði nýr finnskur leikmaður Mika Moilanen. 

 

Þegar skammt var eftir til leiksloka jók Björninn sóknarþungann og tók markvörð sinn úr markinu við uppkast í varnarsvæði Víkinga.  Víkingar unnu uppkastið og pökkurinn barst upp til Andra Sverrissonar sem skoraði í tómt markið og innsiglaði sigurinn.  Þessi leikur var klárlega bæting frá síðustu leikjum en mönnum er ljóst að töluvert þarf að bæta í til þess að tryggja sér sæti í úrslitum í ár.   Það er erfitt en skemmtilegt tímabil framundan.