Mikilvægur sigur á Birninum

Mynd: Elvar Freyr Pálsson (16.10.2012)
Mynd: Elvar Freyr Pálsson (16.10.2012)


Víkingar fóru með öll stigin burt úr Egilshöllinni í gær. Markverðir Víkinga héldu hreinu. Úrslitin: Björninn - Víkingar 0-1 (0-1, 0-0, 0-0).

Víkingar mættu heldur fámennir til leiks, vantaði nokkra leikmenn í hópinn og á upphafsmínútunum misstu þeir þjálfarann, Ingvar Þór Jónsson, meiddan af svelli.

Eins og úrslitin gefa til kynna var þetta leikur markvarðanna og varnir beggja liða voru sterkar. Þetta eru enda fáséðar tölur í hokkíleik, en það var mark Sigurðar Sveins Sigurðssonar sem réði úrslitum. Auk eina marks leiksins var það frammistaða markvarðar Víkinga, Ómars Smára Skúlasonar, sem skipti sköpum í leiknum.

Þrátt fyrir fámennan hóp og að missa Ingvar snemma leiks náðu Víkingar að verjast sóknum Bjarnarins. Bjarnarmenn lágu í sókn á lokamínútunum og skiptu markverði sínum útaf í restina, en það dugði ekki. Víkingar voru eins og klettar í vörninni, lokuðu vel og Bjarnarmenn náðu ekki að munda kylfurnar í nógu góðu færi til að skora. Þau skot sem rötuðu framhjá vörninni voru varin, fyrst af Ómari Smára lengst af, en hann fór meiddur út af á lokamínútunni. Staðfest er að Ómar er óbrotinn, en það á væntanlega eftir að koma í ljós hvort eða hve mikið hann missir úr vegna meiðslanna. Einar Eyland kom inn á í stað Ómars Smára og hélt hreinu síðustu 37 sekúndurnar. Úrslitin: Björninn - Víkingar 0-1.

Þetta er fyrsta tap Bjarnarins í vetur. Víkingar og Björninn höfðu mæst tvisvar áður á þessu tímabili fyrir leikinn í gær. Annan leikinn vann Björninn í venjulegum leiktíma og hinn eftir framlengingu.

Víkingar eru nú komnir í 18 stig eftir átta leiki, en liðið á inni tvo leiki á hin liðin. Björninn situr sem fyrr á toppnum með 28 stig.

Siggi Sig var í viðtali hjá mbl-sjónvarpi eftir leikinn - sjá hér.

Mörk/stoðsendingar
Víkingar
Sigurður S. Sigurðsson 1/0
Refsingar: 22 mínútur

Björninn
Refsingar: 12 mínútur

Við höfum ekki tölur um fjölda varinna skota.

Næsti leikur Víkinga verður föstudaginn 25. janúar gegn SR í Skautahöllinni í Laugardal. Jötnar eiga hins vegar leik næstkomandi þriðjudag, 8. janúar, gegn Fálkum í Skautahöllinni í Laugardal.