Nýr formaður Krulludeildar

Formaður Krulludeildar. Mynd: Sigurgeir Haraldsson
Formaður Krulludeildar. Mynd: Sigurgeir Haraldsson


Haraldur Ingólfsson var í gær kjörinn formaður Krulludeildar á aðalfundi deildarinnar. Smávægilegur hagnaður varð á rekstri deildarinnar á liðnu ári.

Hallgrímur Valsson gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu sem formaður, en hann mun þó starfa áfram að málefnum krullunnar, var kosinn sem varamaður í stjórn og tilnefndur, ásamt Jóni Inga Sigurðssyni, í Krullunefnd ÍSÍ. Gísli Jón Kristinsson hefur verið formaður nefndarinnar um árabil, en hann gaf ekki kost á sér áfram og það gerðu heldur ekki hinir tveir nefndarmennirnir, Ágúst Hilmarsson og Páll Tómasson.

Aðrar breytingar á stjórninni eru þær að Svanfríður Sigurðardóttir hættir eftir að hafa gegnt embætti ritara til fjölda ára og Gísli Jón Kristinsson hætti sem varamaður. Í stað þeirra komu inn í stjórnina þau Rannveig Jóhannsdóttir og Sveinn H. Steingrímsson sem varamaður. Áfram í stjórn sitja þeir Ólafur Freyr Númason, Davíð Valsson og Rúnar Steingrímsson.

Á aðalfundinum var rætt um leiðir til að fjölga iðkendum og gera æfingar deildarinnar markvissari, húsnæðismálin voru rædd fram og aftur og ýmislegt sem viðkemur starfsemi deildarinnar.