Nýr formaður Listhlaupadeildar SA


Halldóra Ósk Arnórsdóttir var í gær kjörin formaður Listhlaupadeildar SA á aðalfundi deildarinnar. Rekstur deildarinnar var í jafnvægi 2012, en afskrifaðar kröfur hafa áhrif á niðurstöðuna til hins verra þegar á heildina er litið.

Dröfn Áslaugsdóttir flutti skýrslu stjórnar og síðan voru reikningar kynntir. Starfsemin á liðnu ári var hefðbundin að mestu leyti. Á fundinum var rætt almennt um starfsemina og mögulegar leiðir til að efla hana og styrkja. Fram kom að nýliðaátak haustið 2012 hafi skilað sér nokkuð vel og að um 90% af þeim sem komu í kynningartíma hafi haldið áfram fram á vorið. 

Breytingar á stjórn og þjálfarateymi
Nýr formaður var kjörinn á fundinum, Halldóra Ósk Arnórsdóttir, sem kemur inn í þetta starf sem áhugamanneskja um íþróttina, en hún er ekki í hópi foreldra innan deildarinnar eins og aðrir stjórnarmeðlimir. Þær Rut Hermannsdóttir, Kristín Þöll Þórsdóttir og Dröfn Áslaugsdóttir gáfu allar kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu, en Birgir St. Birgisson, Heba Finnsdóttir, Inga Randversdóttir, Hrafnhildur Guðjónsdóttir og Helga Margrét Guðjónsdóttir hætta í stjórn frá liðnu ári. Nýjar í stjórn voru kosnar Ingibjörg Þorvaldsdóttir, Elísabet Kristjánsdóttir og Sigrún Ingibjörg Jóhannsdóttir, auk nýja formannsins.

Hrafnhildur Guðjónsdóttir og Inga Randversdóttir hafa tekið að sér embætti fjáröflunarstjóra fyrir deildina.

Fram kom á fundinum að Thelma Eiðsdóttir og Fjóla Gunnarsdóttir muni hætta sem þjálfarar hjá deildinni, en Kristín Helga Hafþórsdóttir hefur verið ráðin skautastjóri og hefur hún störf 15. júlí.