Ósigur á heimavell

Ljósm. Sigurgeir Haraldsson
Ljósm. Sigurgeir Haraldsson

Í gærkvöldi sótti Skautafélag Reykjavíkur okkur heim í meistaraflokki.  Það er skemmst frá því að segja að gestirnir unnu þennan leik og svo virðist sem á okkur hvíli bölvun gegn þeim á heimavelli.  Leikurinn var þó jafn og spennandi frá upphafi til enda, en sem fyrr féll þetta þeirra megin.  Eina mark fyrstu lotu skoraði Orri Blöndal eftir mistök Ævars í marki SR, sem skaut pekkinum beint í magann á Orra fyrir framan markið sem gat ekki annað en skorað við þessar kringumstæður.

 

Í 2. lotu var mikið um að vera, þrjú mörk skoruð og mikið um brottrekstra.  Fyrstu tvö mörkin skoraði Daniel Kolar fyrir SR, það seinna í „power-play“ þar sem SA var skipað þremur leikmönnum en SR fimm.  Orri Blöndal jafnaði svo leikinn fyrir SA skömmu fyrir lok lotunnar óstuddur.

 

Í þriðju lotu var það svo fyrirliði SR, Steinar Páll Veigarsson sem náði forystunni fyrir SR með aðstoð Arnþórs Bjarnasonar eftir mikinn darraðardans við markið.  Rúnar Rúnarsson jafnaði hins vegar leikinn skömmu síðar með skondnu marki, óstuddur.  Um miðbik lotunnar lentu heimamenn svo aftur í því að verða tveimur leikmönnum færri eftir brottvísanir og það nýtti hinn tékkneski Daniel Kolar og skoraði sitt þriðja mark eftir sendingu frá Arnþóri Bjarnasyni.

 

Síðustu mínúturnar var hart barist og gerði SA of harða hríð að marki SR en án árangurs.  Síðustu mínútuna var markmaðurinn tekinn úr netinu og sóknin þyngd, en SR tókst á síðustu sekúndum leiksins að skora í tómt markið og lokastaðan því 5 – 3, SR í vil.

Það er fátt hægt að segja um leik sem þennan.  Baráttan, varnarleikurinn og markvarslan var ágæt en sóknarleikurinn algerlega gerilsneyddur og power-play-ið vægast sagt ömurlegt.   Liðið er ekki ennþá alveg fullskipað, spilar enn þjálfaralaust en Jón Gíslason hefur hlaupið í skarðið og leyst það eins vel og kostur er á.  Hann er hins vegar sárt saknað í sókninni þar sem allar sköpunarkraft vantar um þessar mundir.  Þrátt fyrir þjálfaraleysið þá á liðið að geta gert miklu betur. 

 Mörk og stoðsendingar:

SA:  Orri Blöndal 2/0, Rúnar Rúnarsson 1/0

SR:  Arnþór Bjarnason 1/4, Daníel Kolar 3/0, Steinar Veigarsson 1/0, Gauti Þormóðsson 0/1.

 

Brottvísanir:  SA 32 mín SR 16 mín