Samherjastyrkur - þakkir.

Í gær veitti útgerðarfyrirtækið Samherji á Akureyri styrki til ýmissa samfélagsverkefna á Eyjafjarðarsvæðinu samtals upp á 75 milljónir króna. Flestir styrkirnir eru gagngert veittir til að efla barna- og unglingastarf í íþrótta- og æskulýðsfélögum á Eyjafjarðarsvæðinu og er þetta þriðja árið í röð sem Samherji veitir þessa styrki.

Skautafélag Akureyrar hefur notið þessa framlags og gær tók undirritaður við styrkloforði samtals að upphæð kr. 3,2millj.  Styrkurinn er tvískiptur því annars vegar er um að ræða kr. 2.500.000.- til barna og unglingastarfs sem gagngert er notað til þess að greiða niður æfingagjöld barna og unglinga 16 ára og yngri.  Skautafélagið hefur haft þann háttinn á undanfarin tvö ár að útdeila styrknum haustið eftir veitingu og deila honum jafnt til iðkennda bæði listhlaupa- og hokkídeildar til lækkunar á æfingagjöldum.

Hins vegar var svo um að ræða kr. 700.000.- sem sérstaklega eru ætlaðar meistaraflokkum félagsins í íshokkí.

Það er óþarfi að tíunda það sérstaklega hve rausnarlegur þessi styrkur er og hve mikilvægur hann er jafnt fyrir barna- og unglingastarfið okkar sem og meistaraflokkanna.  Segja má að styrkveitingarnar hafi komið á hárréttum tíma, þegar stóraukinn kostnaður lagðist á íþróttafélögin sem að öllu óbreyttu hefði skilað sér í hækkun æfingagjalda.  Þökk sé styrkjum þessum er foreldrum léttur róðurinn við greiðslur æfingagjalda barna sinna og hefur þetta án efa komið í veg fyrir umtalsvert brottfall barna og unglinga úr íþróttum á svæðinu á annars erfiðum tímum. 

 

Við erum því full þakklætis til forsvarsmanna Samherja fyrir þessa rausnarlegu gjöf og heitum því að ráðstafa henni viturlega, sem flestum til hagsbóta.

 

Sigurður Sigurðsson
Formaður