Tap gegn Suður-Kóreu

Guðlaug varði víti frá Króatíu. Mynd: ÍHÍ
Guðlaug varði víti frá Króatíu. Mynd: ÍHÍ


Háfjallaveikin er enn að stríða stelpunum í landsliðinu og hefur það haft áhrif á gang mála í leikjum liðsins. Súrefniskútar koma að góðum notum.

Kristín Ingadóttir kom íslenska liðinu yfir eftir rúmlega átta mínútna leik, með stoðsendingu frá Steinunni Erlu Sigurgeirsdóttur og Söruh Smiley. Þetta reyndist eina mark íslenska liðsins. Kóreska liðið jafnaði í fyrsta leikhluta, bætti síðan við tveimur mörkum í öðrum og einu í lokaleikhlutanum. Lokatölur: Ísland - Suður-Kórea 1-4 (1-1, 0-2, 0-1).

Mörk/stoðsendingar
Kristín Ingadóttir 1/0
Steinunn Erla Sigurgeirsdóttir 0/1
Sarah Smiley 0/1
Refsingar: 10 mínútur
Varin skot: 35

Hjá Suður-kóreska liðinu vörðu markverðirnir samtals 19 skot og liðið fékk 6 refsimínútur. Eins og sjá má á fjölda varinna skota hafa þær kóresku sótt fast að marki íslenska liðsins og Guðlaug haft nóg að gera.

Upplýsingar um leikin í dag: Bein atvikalýsing - Leikskýrsla.

Á heimasíðu mótshaldara eru komnar inn myndir úr leikjunum, leitið að flipa "pictures" efst á síðunni.

Súrefniserfiðleikar gera enn vart við sig
Fram kemur í dagbók fararstjóra frá því fyrr í dag að í leiknum í gær hafi margar úr liðinu átt í erfiðleikum vegna háfjallaveiki, en Puigcerdá er í 1.000 metra hæð eins og áður hefur komið fram. Ein þurfti súrefni eftir annan leikhluta og önnur að leik loknu - allar voru með höfuðverk eftir leikinn.

Sarah á toppnum
Sarah Smiley hefur verið atkvæðamikil í íslenska liðinu, var valin maður leiksins úr okkar röðum bæði gegn Suður-Afríku og Króatíu. Hún var jafnframt markahæst og stigahæst allra leikmanna á mótinu að loknum tveimur leikjum, hafði skorað fjögur mörk og átt þrjár stoðsendingar. Sarah skoraði reyndar ekki fyrir íslenska liðið í dag.

Fjórði og næstsíðasti leikur íslenska liðsins verður á laugardag kl. 18.00 að íslenskum tíma, en þá mætum við liði gestgjafanna, Spánverja.

Margrét Ólafsdóttir fararstjóri flytur reglulega fréttir af hópnum á vef ÍHÍ undir heitinu "dagbók fararstjóra"