Til þeirra er málið varðar

Akureyri 25.01.2006

Skautafélag Akureyrar, félagar og velunnarar félagsins,

Mig langar að biðjast afsökunar á slæmri hegðun minni eftir leik okkar stelpnanna í Egilshöll  laugardaginn 21.janúar síðastliðinn. Þar sem ég vanvirti dómara leiksins all hraustlega. Ég var mjög reið og  tapsár í bland, en hefði betur bitið í tunguna á mér og bölvað í hljóði eins og sönnum íþróttamanni sæmir.

Ég sé auðvitað mikið eftir þessu og trúi því varla núna að ég hafi gert þetta, en þetta verður því miður ekki aftur tekið. Skaðinn er skeður og ég stend og fell með þessum gjörðum.

Mér þykir mjög leiðinlegt að hafa svert ímynd SA (leikmenn þess sem og velunnara félagsins). Félag sem reynir alltaf eftir fremsta megni(eins og sennilega öll félögin) að draga úr aga-brotum og óíþróttamannslegri hegðun.

Ég veit að þessi hegðun mín setur ekki bara svartan blett á mig heldur einnig liðsfélaga mina, félagið mitt og íþróttina í heild sinni. Mér þykir þetta mjög leiðinlegt, því ég unni íþróttinni mikið og finnst neikvæð umfjöllun, af þessu tagi, vægast sagt ömurleg. Neikvæð umfjöllun er vissulega alltaf ömurleg en þó sérstaklega þegar íþrótt er í miklum uppvexti eins og íshokkí er hér á landi og hefur ekki efni á slæmri umfjöllun.

Ég hefði átt að gera mér grein fyrir því að ég er ekki að spila sem einstaklingur heldur sem hluti af stórri heild og sem landsliðsmanneskja að auki, ber mér skylda til að vera fyrirmynd fyrir aðra íþróttamenn. Það sem ég geri sem liðsfélagi og/eða meðlimur í einhverskonar félagi/klúbbi, hefur vissulega áhrif á rosalega margt og marga.  

Ég taldi mig vera góða fyrirmynd fram að þessu atviki en er það því miður ekki sem stendur. Ég legg mikinn metnað í að vera fyrirmynd fyrir aðra hvar sem ég kem og ætla mér að verða það aftur.

Ég get fullvissað ykkur öll á því að þetta sjáið þið ekki aftur af minni hálfu og ég mun reyna eftir fremsta megni að miðla því til allra sem stunda nokkurskonar íþróttir eða samskipti við fólk, að svona hegðun er algjörlega til skammar og á ekki að sjást nokkurstaðar, sama hvað á dynur.

 Virðingarfyllst,

Sólveig Gærdbo Smáradóttir

leikmaður Skautafélags Akureyrar í íshokkíi.