Upphafsmenn krullu á Íslandi bæði látin.

Minningarorð um Sophie og Tom Wallace.

Kæru krullarar,

Nýlega bárust okkur fregnir af því að öðlingshjónin Tom og Sophie Wallace frá Seattle í Bandaríkjunum væru bæði látin í hárri elli. Sophie lést í sumar og Tom nokkru fyrr.

Sophie Wallace, fædd Jonina Sophia Olafson af ættum  vestur Íslendinga í Manitoba Kanada, var heilinn á bak við hugmyndina sem markaði upphaf krulluíþróttarinnar á Íslandi.

Þannig var að árið 1990 hafði verið samþykkt að krulla kæmi til álita sem Ólympíugrein, en með því skilyrði að aðildarþjóðir að WCF væru 25 en ekki  24. Tom og Sophie, stofnendur Seattle Granite Curlingclub og sannir krullarar af lífi og sál, brugðu skjótt við, flugu til Íslands og náðu að sannfæra stjórn ÍSÍ um að sækja um inngöngu í alþjóðasamtök krullunnar. Þar með var síðustu hindrun rutt úr vegi fyrir því að krullan gæti orðið Ólympíuíþrótt.

Þau hjónin voru síðan óþreytandi í viðleitni sinni við að fá sköpuð skilyrði til að stunda þessa íþrótt á Íslandi. Sophie sagði reyndar að hún ætti  stundum erfitt með að skilja hugsunarhátt forystumanna íþróttahreyfingarinnar á Íslandi þegar munnleg loforð virtust ekki hafa neina vigt.

Tom og Sophie gengust fyrir söfnun í Íslendingbyggðum Kanada með sölu á merkinu  „ Support Curling in Iceland“. Söfnunarfé var m.a. notað árið 1995 þegar fjórum Íslendingum var boðið til Gimli í Kanada til að læra „undirstöðuatriði krullunnar“. Við Marjo heitin vorum í þessum hópi og fengum þar þá ást á þessari íþrótt sem ekki varð aftur tekin.

Þau gerðu sér nokkrar ferðir til Íslands í þeim tilgangi að fylgja eftir og þrýsta á um að málum yrði komið áfram hér á landi.

Tom og Sophie Wallace komu síðast til Íslands í mars 2000 og voru viðstödd vígslu Skautahallarinnar á Akureyri. Fyrir þeirra atbeina skipaði krullan veglegan sess í opnunarhátíð hallarinnar þar sem forseti Íslands renndi fyrsta steini í fyrsta krulluleik innanhúss á Íslandi.

Við íslenskir krullarar eigum þessum hjónum allt að þakka, og skylda okkar er að halda í heiðri minningu þeirra.

 

Gísli Kristinsson