Upplýsingar vegna basic test / grunnprófs ÍSS

Í gær þriðjudaginn 21. apríl fengu foreldrar barna sem fara í grunnpróf ÍSS tölvupóst með ýmsum upplýsingum. Vinsamlegast kíkið yfir þetta ef þið af einhverjum orsökum fenguð ekki póstinn.

 

Sælir foreldrar!

Þá eru einungis 3 dagar í Basic test eða grunnpróf ÍSS. Stelpurnar eru allar búnar að vera mjög duglegar og það hefur gengið mjög vel að undirbúa þær.

  • Það er komið gróft plan fyrir föstudaginn og er áætlað að prófin byrji kl. 13:00 og ljúki upp úr kl. 16:30. Þær draga í hvaða röð þær taka prófin kl. 12:30 í skautahöllinni. Þær þurfa að vera mættar ekki seinna en kl. 12.
  • Sumar eru væntanlega í skóla á þessum tíma og ef svo er væri gott ef þið foreldrar gætuð haft samband við skólann og fengið frí fyrir þær.
  • Það er mikilvægt að þær borði góðan hádegismat u.þ.b. kl. 11:30 og taki með sér létt nesti meðan þær bíða á milli prófhluta, kannski taka með sér 2 trópí, vínber, banana og þess háttar...alls ekki eitthvað þungt í maga.
  • Þær skulu mæta í keppniskjólum/samfestingum með hárið snyrtilega greitt, hettulausri peysu og með fingravettlinga. Þær þurfa líka að koma með góða íþróttaskó með sér, vatnsbrúsa og hlýja úlpu.
Eins og þið vitið þá tvíbókaðist ístíminn á laugardag sl. Við áttum þennan ístíma bókaðan þar sem við lánuðum höllinni ístíma okkar fyrir nokkrum vikum. Við urðum þó að gefa eftir í þetta sinn því hokkístrákar frá Reykjavík voru mættir til Akureyrar og ekki hægt að senda þá heim. Þetta var heldur leiðinlegt þar sem við ætluðum að hafa "generalprufu" fyrir prófið þennan dag og stuttan fund. Það hefur ekki gengið neitt að fá lausan tíma í höllinni í staðinn nema þá á sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn 23. apríl. Við munum sleppa morgunæfingunni þennan morgun og í staðinn hafa aukaæfingu í kringum hádegi, á eftir að fá staðfest hjá Vidda hvenær það verður og sendi ykkur aftur póst um það. Á morgun á æfingatíma mun ég spyrja allar stelpurnar varðandi það hvort þær vilja hafa foreldra viðstadda eða ekki, ég læt ykkur svo vita :) Mig langaði svo að athuga hvort að einhver byði sig fram í að taka upp stelpurnar í prófinu, væri svo gott fyrir þær að geta horft á þetta eftir á og séð hvað það var sem gekk vel/illa. Fyrir þær sem hugsanlega ná ekki öðrum hvorum hlutanum væri það frábært tækifæri fyrir þær til að læra af mistökum og horfa á það sem betur mætti fara. Ef einhver er laus þennan dag þá endilega látið mig vita, ég á upptökuvél.

Kær kveðja,
Helga Margrét