Víkingar - SR fyrri leikur 4 - 3

Ómars stoppar Gauta í gær: Ljósmynd Sigurgeir Haraldsson
Ómars stoppar Gauta í gær: Ljósmynd Sigurgeir Haraldsson

Í gærkvöldi fór fram hörku viðureign á milli Víkinga og Skautafélags Reykjavíkur í Skautahöllinni á Akureyri.  Mikið jafnræði var með liðunum frá upphafi til enda og úrslit réðust ekki fyrr en í framlenginu þar sem Jón Gísla og Jói Leifs kláruðu leikinn.

Fyrsta markið kom á 6. mínútu leiksins þegar Hilmar Leifsson hamraði pökkinn frá bláu eftir sendingu frá Jóni Gísla og kom Víkingum í 1 – 0.  Önnur lota var í meira lagi sérstök þar sem Víkingarnir fengu 7 tveggja mínútna dóma og voru því meira eða minna í nauðvörn.  Í tvígang voru Víkingar 3 á móti 5 en SR tókst aðeins að nýta sér liðsmuninn í annað skiptið.  Gestirnir settu þrjú mörk, eða öll sín mörk í leiknum í þessari lotu en þar voru á ferðinni hinn finnski Timo Koivumaki, Tómas Tjörvi og Pétur Maack.  Sigurður Sigurðsson minkaði muninn skömmu fyrir lok lotunnar með aðstoð frá Rúnari Rúnarssyni og Einari Valentine. 

Þegar þriðja lota hófst var því staðan 3 – 2 fyrir þá sunnlensku og spennan í hámarki.  Jöfnunarmarkið kom stax á 2.mínútu lotunnar en þar var að verki Jói Leifs eftir sendingu frá Jóni Gísla.  Mikið gekk á fram eftir lotunni en markmennirnir voru í aðalhlutverki og héldu sínum liðum inni í leiknum.  Skömmu fyrir lok lotunnar komst Gauti Þormóðsson einn í gegnum Víkingavörnina en Ómar Smári var ekki í vandræðum með það og varði nokkuð örugglega.

Hvorugu liðinu tókst að skora fyrir leikslok og því þurfti að framlengja, en í framlenginu er fækkað um einn á svellinu og spilað 4 á 4.  Bæði lið áttu menn í refsiboxinu þegar leiktíminn rann út þannig að framlengingin hófst með þremur leikmönnum hvoru megin.

Víkingamegin hófu framlenginguna Jón, Jói og Bjössi en SR-megin voru það Þórhallur Viðarsson, Egill Þormóðsson og Sölvi Sigurjónsson.  Víkingarnir kunnu vel við sig 3 á 3 og Jón Gísla sett´ann í þaknetið eftir góðan undirbúning Jóa Leifs þegar aðeins 31 sek var búin af framlengingunni , og kláraði þannig leikinn.

 

Í kvöld mætast liðin aftur kl. 19:30 og gera má ráð fyrir því að sá leikurinn verði ekki minna spennandi.

Mörk/stoðsendingar:

SA Víkingar: Jón Benedikt Gíslason 1/2, Jóhann Már Leifsson 1/1, Sigurður Sveinn Sigurðsson 1/0, Hilmar Leifsson 1/0, Björn Már Jakobsson 0/1, Rúnar Freyr Rúnarsson 0/1, Einar Valentine 0/1.

SR: Pétur Maack 1/1, Tino Koivumaki 1/0, Tómas Ómarsson 1/0, Gauti Þormóðsson 0/1, Arnþór Bjarnason 0/1, Ragnar Kristjánsson 0/1.