Karfan er tóm.
Víkingar kláruðu seinni viðureign helgarinnar með sigri á gestunum úr Laugardalnum með 5 mörkum gegn 2. Leikurinn var líkt og sá fyrri spennandi og einkenndist af mikilli baráttu. Fyrsta lotan var markalaus en fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós á fyrstu mínútu 2.lotu en þá skoraði Jóhann Leifsson eftir sendingu frá Jóni Gíslasyni. Skömmu síðar jók svo varnarmaðurinn Ingólfur Elíasson muninn í 2 – 0 með sínu fyrsta marki í meistaraflokki.
Fleiri urðu mörkin ekki í lotunni og því voru Víkingar með ákjósanlega 2 – 0 stöðu fyrir þriðju og síðustu lotuna. Það voru hins vegar þeir sunnlensku sem fóru betur af stað í síðustu lotunni og minnkuðu muninn í 1 – 2 strax á fyrstu mínútu og voru mjög ógnandi á meðan Víkingarnir voru værukærir.
Rétt rúmum tveimur mínútum síðar skoraði svo Gunnar Darri Sigurðsson eftir sendingar frá Sigmundi Sveinssyni og Stefáni Hrafnssyni. SR-ingar voru þó ekki alveg hættir því aðeins nokkrum sekúndum síðar minnkaði Þórhallur Viðarsson muninn með óverjandi skoti frá bláu línunni. Björn Már Jakobsson jók forystuna skömmu síðar með ekki síðra skoti eftir sending frá Jóni Gísla en það var svo á lokasekúndunum sem Stefán Hrafnsson skoraði auðveldlega í tómt markið hjá SR, sem höfðu tekið markmanninn út til þyngja sóknina á síðustu sekúndunum. Lokastaðan 5 – 2 og Víkingar á mikilli siglingu. Víkingar fá nú tveggja daga pásu en svo er komið að heimaleik á móti Birninum á þriðjudaginn. Bjarnarmenn hafa nú unnið Jötna í þrígang í vetur og nú er komið að því að þeir fái að spreyta sig á móti Víkingum.