Karfan er tóm.
Ómar Smári stóð á milli stanganna hjá SA og svaraði undangenginni gagnrýni með því að skella í lás, halda markinu hreinu og sýna hvers hann er megnugur. Vægast sagt kærkomið "shut-out" í upphafi nýs árs. Leikurinn var annars hraður alveg frá fyrstu mínútu og nokkuð jafnræði með liðunum þó sóknarþunginn væri meiri á mark gestanna. Fyrsta mark leiksins leit ekki dagsins ljós fyrr enn á 2. mínútu 2. lotu þegar Josh Gribben skoraði í "power-play" eftir góða "drop"sendingu frá Stefáni Hrafnssyni. Þetta mark kom vel á vondan því SR var að taka úr 2 mín refsingu sem markvörðurinn Ævar Björnsson fékk fyrir að ýta við markinu, en það á hann til að gera til að stöðva leikinn. Annars var í raun gert út um leikinn í 2. lotunni því alls urðu mörkin 4 talsins og ljóst að allur vindur var úr þeim sunnlensku.
Annað markið kom frá Orra Blöndal eftir sendingu frá Stefáni og þriðja markið kom í "power-play" þegar hinn 16 ára, ungi og efnilegi Jóhann af Leifsson ættbálkinum skoraði laglegt mark eftir undirbúning þeirra Josh og Stefáns. Síðasta mark lotunnar skoraði svo fyrirliðinn Jón Gíslason eftir sendingu frá öðrum ungliða, hinum 16 ára Ingólfi Elíassyni.
Í síðustu lotunni var því komin þægileg 4 - 0 forysta og því var planið fyrst og fremst að halda fengnum hlut, en liðið gerði gott betur og bætti við tveimur mörkum en þar voru ferðinni Jói Leifs og Helgi Lecunt Gunnlaugsson. Jói skoraði eftir undirbúning frá Jóni Gísla og Stefáni Hrafnssyni en markið hans Helga var flott stýring eftir skot frá Ingólfi frá bláu.
Sigurinn var svo sannarlega sætur og óhætt að segja að við höfum þurft á þessu að halda. Með þessum sigri tókum við toppsætið í deildinni af SR-ingum sem nú hafa tapað fjórum leikjum í röð og virðast alveg lánlausir um þessar mundir. Björninn hefur svo með frammistöðu sinni minnt rækilega á sig hafa gert sig líklega til að geta atlögu að sæti í úrslitum. Næsti leikur verður gegn Birninum í Reykjavík n.k. þriðjudag.
Mörk og stoðsendingar
SA: Stefán Hrafnsson 0/4, Josh Gribben 1/2, Jóhann Leifsson 2/0, Jón Gíslason 1/1, Ingólfur Elíasson 0/2, Orri Blöndal 1/0, Helgi Gunnlaugsson 1/0,
SR: 0
Brottvísanir - SA: 18mín SR: 12mín