Sigur í þriðja leik úrslita
Skautafélag Akureyrar bar sigur úr býtum í þriðju viðureign SA og SR í úrslitakeppninni, sem fram fór í gærkvöldi. Leikurinn fór fram hér í Skautahöllinni á Akureyri og var vel sóttur af áhorfendum auk þess sem hann var sýndur beint á sjónvarpsstöðinni N4.
Það var að duga eða drepast fyrir SA í þessum leik og liðið stóðst álagið í jöfnum og spennandi leik. Líkt og í síðasta leik var markaskorun í lágmarki og leiknum lauk með 3 – 2 sigri SA, sama markatala og síðast en nú réttu megin.
Það voru SR-ingar sem hófu leikinn með marki á 8. mínútu þegar bæði lið spiluðu einum leikmanni færri, en þar var á ferðinni Björn Sigurðsson. SA svaraði fyrir sig með tveimur mörkum með stuttu millibili, það fyrra frá Jóhanni Leifssyni eftir sendingu frá Jóni Gíslasyni og það síðara frá Gunnari Darra Sigurðssyni eftir sendingu frá Steinari Grettissyni. Leikar stóðu því 2 – 1 eftir fyrstu lotu.