Á leið til Rússlands

Höllin í St. Pétursborg - af vefsíðu hennar.
Höllin í St. Pétursborg - af vefsíðu hennar.


Átta hokkístrákar úr röðum SA, ásamt þjálfara og fjórum foreldrum, og að auki nokkrum hokkímönnum í eldri kantinum, héldu í gær á vit ævintýranna í austurvegi.

Hópurinn sameinaðist hokkíleikmönnum, foreldrum og þjálfurum úr Birninum og SR og síðan var flogið til Helsinki, þaðan sem áfram verður haldið til St. Pétursborgar í Rússlandi í dag. Þar mun úrval úr SA, Birninum og SR tekur þátt í Arctic Ice Cup hokkímótinu. Fararstjóri og yfirþjálfari í ferðinni er Sarah Smiley.

Með í för eru einnig nokkrir leikmenn sem komnir eru „á efri ár“, bæði úr „Old boys“ hópnum hjá SA og úr meistaraflokki. Þeir sameinast kollegum sínum að sunnan og taka þátt í Old boys móti í Rússlandi. Við segjum nánar frá því móti síðar.

Íslenska ungmennaliðið verður í riðli með Kanada, Finnlandi og úrvalsliði St. Pétursborgar. Liðið leikur einn leik á morgun, fimmtudag, tvo á föstudaginn og síðan verða úrslitaleikir á sunnudaginn, 9. desember. Á mánudag heldur hópurinn svo aftur til Helsinki með rútu, flýgur heim og lendir í Keflavík síðdegis.

Íslenska liðið samanstendur af strákum sem fæddir eru 1999 og 2000. Frá SA eru þeir Egill Birgisson, Einar Kristján Grant, Guðmundur Orri Knútsen, Halldór Ingi Skúlason, Heiðar Örn Kristveigarsson, Kristján Árnason, Sveinn Verneri Sveinsson og Sigurður Freyr Þorsteinsson. Kristján Sigurðsson átti að fara með hópnum en var svo óheppinn að fótbrotna fyrir tveimur vikum, þannig að hann missti af þessari ferð en fer væntanlega til Svíþjóðar í Mars í staðinn.

Nánari upplýsingar um ferðina og mótið 
Fleiri myndir af höllinni 
Facebook-síða mótsins

Birgir Örn Reynisson var með myndavélina á lofti (og verður vonandi áfram) og sendi fréttaritara nokkrar myndir frá fyrsta áfanga ferðarinnar, þ.e. Íslandshlutanum. Vonandi fáum við svo fleiri myndir fljótlega. Smellið á myndina til að opna albúmið.