Akureyrarmótið: Litið til baka

Víkingar hafa oftast unnið Akureyrarmótið, Skytturnar oftast unnið til verðlauna.

Akureyrarmótið í krullu stendur nú yfir og er þetta í sjöunda skipti sem mótið fer fram. Því miður er þetta fámennasta mótið frá upphafi. Sex lið taka nú þátt en þau urðu flest ellefu árið 2006.

Víkingar eru sigursælasta liðið á Akureyrarmótinu ef litið er til þess hvaða lið hafa orðið Akureyrarmeistarar. Víkingar hafa þrisvar sinnum orðið Akureyrarmeistarar, Mammútar tvisvar og Skytturnar einu sinni. Skytturnar hafa hins vegar oftast unnið til verðlauna á mótinu, alls fimm sinnum eða í öll skipti sem liðið hefur tekið þátt, en Víkingar hafa fjórum sinnum unnið til verðlauna.

Skytturnar voru ekki til 2004 þegar fyrsta Akureyrarmótið fór fram og liðið tekur reyndar ekki þátt í mótinu þetta árið þannig að áfram munu Skytturnar tróna á toppnum hvað fjölda verðlauna á Akureyrarmótinu verðar og geta státað af því að hafa unnið til verðlauna alltaf þegar liðið hefur tekið þátt.

Þrír leikmenn hafa unnið til verðlauna öll árin sem Akureyrarmótið hefur farið fram, Jón S. Hansen, Ágúst Hilmarsson og Sigurgeir Haraldsson. Þeir unnu allir til verðlauna fyrsta árið sem Akureyrarmótið fór fram, hver með sínu liðinu. Jón vann þá gullverðlaun með Víkingum, Ágúst silfur með Fálkum og Sigurgeir brons með Ísmeisturum. Eftir það hafa þeir unnið saman til verðlauna á mótinu á hverju ári með Skyttunum. Sigurgeir hefur síðan tækifæri til að skjóta félögum sínum ref fyrir rass þetta árið því þeir Jón og Ágúst eru ekki með, en Sigurgeir leikur með Riddurum.

Gísli Kristinsson hefur oftast einstaklinga orðið Akureyrarmeistari í krullu, alls þrisvar sinnum. Skytturnar þrjár, Jón, Ágúst og Sigurgeir hafa hins vegar oftast unnið til verðlauna, sex sinnum hver, síðan Birgitta Reinaldsdóttir, fimm sinnum, og þá Gísli Kristinsson, fjórum sinnum.

Alls hafa 40 einstaklingar í átta liðum unnið til verðlauna á Akureyrarmótinu. Fram að mótinu í ár höfðu verið leiknir 204 leikir í Akureyrarmótinu og bætast 15 leikir við þetta árið. Spurningin er bara: Hverjir vinna? Um það geta lesendur spáð í könnuninni hér neðar og til hægri á síðunni.

Sjá heildaryfirlit um verðlaunahafa í pdf-skjali hér að neðan.