Ásynjur áttu aldrei möguleika gegn fantagóðum Ynjum

Silvía var öflug í leiknum (mynd: Elvar Pálsson)
Silvía var öflug í leiknum (mynd: Elvar Pálsson)

Í gærkvöld, þriðjudagskvöld, fór fram þriðji innbyrðis leikur kvennaliða SA. Áður hafði hvort lið unnið einn sigur og voru jöfn að stigum á toppi deildarinnar þannig að það lið sem færi með sigur af hólmi myndi ekki bara taka forystuna í einvígi liðanna heldur einnig í deildinni. Ynjur fóru með sigur af hólmi og varð leikurinn í raun aldrei eins spennandi og leikir þessara liða eru þó yfirleitt. Ásynjur byrjuðu þó af krafti en tókst ekki að skora. Það gerði hins vegar Berglind Rós Leifsdóttir og kom Ynjum yfir þegar tæpar tvær mínútur voru eftir af fyrstu lotu.

Ynjur byrjuðu hins vegar aðra lotu með látum og Silvía Rán Björgvinsdóttir kom Ynjum í 2-0 með glæsilegu marki og stuttu seinna bætti hún öðru við. Hún bætti svo fjórða marki Ynja við áður en Birna Baldursdóttir náði að minnka muninn fyrir Ásynjur undir lok lotunnar. Sunnu Björgvinsdóttur líkaði það þó ekki og skoraði tvö glæsileg mörk strax á eftir og staðan þegar liðin fóru inn í seinna leikhléið var 1 – 6, Ynjum í vil. Ynjur áttu algjörlega þessa lotu, þó kannski sérstaklega Silvía og Sunna.

Ásynjur komu ákveðnar inn í síðustu lotuna og á 49. mínútu náði Thelma María Guðmundsdóttir að minnka muninn í 2 – 6. Sunna kom Ynjum í 2 – 7 og Jónína Guðbjartsdóttir minnkaði aftur muninn fyrir Ásynjur og lauk leiknum með 3 – 7 sigri Ynja.

Leikmenn heimsóttu refsiboxin óvenju lítið í leiknum, aðeins 4 mínútur á hvort lið. Þetta var langbesti leikur Ynja í vetur en Ásynjur hafa oft leikið betur en í kvöld. Guðrún Katrín fann sig ekki í marki Ásynja og þó leikmenn hafi lagt sig alla fram, dugði það einfaldlega ekki í kvöld. Áberandi var hversu góðan leik margar af yngstu Ynjunum áttu og af því má sjá að framtíðin sé björt í kvennahokkí á Akureyri. Jussi Sipponen, þjálfari Ynja, hafði þetta um leikinn að segja: „Í heild var þetta besti leikur Ynja á leiktímabilinu en á sama tíma áttu Ásynjur ekki góðan leik sem augljóslega hjálpaði okkur. Ég gæti nefnt nöfn margra leikmanna sem spiluðu vel í kvöld en klárlega sigur liðsheildarinnar.“

Ásynjur eiga næst leik gegn Reykjavík í Egilshöll n.k. laugardag, en 28. nóvember munu Ynjur og Ásynjur eigast við í fjórða sinn í vetur.