Ásynjur auka forskotið

Úr leik liðanna fyrr á tímabilinu (mynd: Elvar P.)
Úr leik liðanna fyrr á tímabilinu (mynd: Elvar P.)

Ásynjur sóttu þrjú stig til Reykjavíkur á laugardag þegar þær unnu lið Reykjavíkur, 9-3, í Egilshöll. Lið Ásynja var frekar þunnskipað, aðeins 10 útispilarar og Bart Moran þjálfari þeirra var upptekinn í leik í Laugardalnum, þannig að Jónína Margrét Guðbjartsdóttir var spilandi þjálfari í leiknum.

Reykjavíkurliðið byrjaði af krafti sem kom Ásynjum aðeins úr jafnvægi. Reykjavík skoraði strax eftir tvær og hálfa mínútu og það tók Ásynjur rúmar 6 mínútur að jafna þegar reynslutröllið Birna skoraði. Alda Ólína bætti síðan tveimur mörkum við, bæði á 14. mínútu og staðan 1-3 í fyrra leikhléi.

Birna skoraði sitt annað mark og fjórða mark Ásynja strax á fyrstu mínútu annarar lotu en Reykjavíkurstúlkur svöruðu fljótlega fyrir sig. Arndís bætti svo fimmta markinu við rétt fyrir miðja lotuna og þannig var staðan í seinna leikhléi, 2-5.

Reykjavíkurliðið bætti sínu þriðja marki við eftir tæpar 7 mínútur af þriðju lotu þegar þær nýttu sér vel hybrid rangstöðuregluna, en fleiri urðu mörk þeirra ekki. Ásynjur héldu hins vegar áfram að skora, fyrst Birna, svo Díana tvö mörk og að lokum Alyssa.

Jónína sagði eftir leikinn að þrátt fyrir sigur hefðu þær ekki átt góðan leik. Þrjár landsliðskonur sáttu heima, þær Sarah, Anna Sonja og Thelma, og Jónína sagði að þær hefðu mætt of kokhraustar í leikinn eftir að hafa unnið Reykjavíkurstúlkur 12-0 í síðasta leik. Þær hefðu haldið að þetta yrði létt og þurftu að fá á sig mark til að vakna.

Ásynjur hafa eftir sigurinn 5 stiga forskot á Ynjur á toppi deildarinnar. Næsti leikur SA liðanna átti að vera n.k. laugardag þegar Ynjur áttu að taka á móti Reykjavíkurliðinu en þeim leik hefur verið frestað vegna landsliðsæfinga. Næsti leikur verður því enn einn innbyrðisslagur Ynja og Ásynja, þriðjudaginn 13. febrúar kl. 19:30. Ef Ynjur ætla sér deildarmeistaratitilinn þá verða þær að vinna þann slag þannig að hægt er að lofa góðri skemmtun í skautahöllinni þá.

Mörk (stoðsendingar) Ásynja: Birna 3 (2), Alda 2, Díana 2, Arndís 1 (1), Alyssa 1, Hulda (2), Guðrún Marín (1) og Jónína (1)