Ásynjur deildarmeistarar í Hertz deild kvenna

Úr leiknum í gærkvöld (mynd: Elvar Pálsson)
Úr leiknum í gærkvöld (mynd: Elvar Pálsson)

Ásynjur tryggðu sér í gærkvöld deildarmeistaratitilinn í Hertz deild kvenna þegar höfðu sigurorð af Ynjum í vítakeppni eftir 5-5 jafntefli í venjulegum leiktíma. Það er synd að þessi lið mætast ekki oftar í vetur en áhorfendur urðu svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum í gærkvöld, ekki frekar en áður í þessu skemmtilega einvígi tveggja bestu liða landsins.

Í lið Ásynja vantaði þær Guðrúni Blöndal og Jónínu Guðbjartsdóttur en Ynjur voru með nánast fullskipað lið. Elise Marie er meidd og gat ekki spilað leikinn en hennar í stað stóð Guðrún Gunnarsdóttir í sínum fyrsta meistaraflokksleik í marki en hún er aðeins 16 ára gömul og hefur spilað sem útispilari þar til nýlega. Fanney Stefánsdóttir stóð í hinum markinu en hún spilaði einmitt sinn fyrsta meistarflokksleik fyrir jólin.

Leikurinn byrjaði fjörlega en Sarah Smiley kom Ásynjum yfir eftir 30 sekúndna leik. Ynjur voru fljótar að svara og náðu forystunni með tveimur mörkum með stuttu millibili frá Silvíu Björgvinsdóttur.  Þá var komið að Lindu Brá Sveinsdóttir fyrir Ásynjur en hún skoraði tvö síðustu mörk lotunnar og Ásynjur fóru með 3-2 forystu til leikhlés. Ynjur voru sterkari aðilinn í fyrstu lotu þrátt fyrir allt og spilið gekk smurt en Ásynjur voru nokkuð beittar í skyndisóknum.

Strax í byrjun annarar lotu jafnaði Silvía Björgvinsdóttir leikinn fyrir Ynjur og skoraði sitt þriðja mark í leiknum. Birna Baldursdóttir kom Ásynjum aftur yfir um miðja lotuna en Silvía Björgvinsdóttir jafnaði um hæl og hafði þá skorað öll fjögur mörk Ynja. Í lok lotunnar náðu Ynjur svo aftur forystunni með marki Berglindar Leifsdóttur og þannig stóð í leikhléi.

Þriðja lotan var gríðarlega spennandi þar sem mikið gekk á og baráttan var hrikaleg. Ásynjur náðu að jafna leikinn þegar um 12 mínútur lifðu leiks með marki frá Arndísi Sigurðardóttur. Síðustu tíu mínútur leiksins voru algjört stríð þar sem ekkert var gefið eftir og bæði lið spiluðu af hörku og reyndu hvað þær gátu að tryggja sínu liði stigin 3.  Markverðir og varnir liðanna voru þéttar en dómarinn hélt ró sinni og gaf leiknum flæði þrátt fyrir að spennustigið hafi verið hátt. Hvorugu liðinu tókst að skora sigurmarkið og leikurinn fór því í framlengingu sem endaði markalaus. Farið var í vítakeppni en liðin þurftu 18 tilraunir til þess að kveða á um sigurvegara. Markverðir liðanna skinu skærast en þær stöllur vörðu 11 víti en á lokum var það Birna Baldursdóttir sem tryggði Ásynjum sigurinn og þar með deildarmeistaratitilinn þrátt fyrir að Ynjur hafi líklega spilað sinn besta leik á tímabilinu.

Mörk og stoðsendinar liðanna:

Ynjur

Silvía Björgvinsdóttir 4/1

Sunna Björgvinsdóttir 0/3

Berglind Leifsdóttir 1/0

Kolbrún Garðarsdóttir 0/1

Ásynjur

Linda Brá Sveinsdóttir 2/1

Sarah Smiley 1/2

Arndís Sigurðardóttir 1/1

Birna Baldursdóttir 1/1

Alda Arnarsdóttir 0/1

Bergþóra Bergþórsdóttir 0/1