Auðveldur sigur á Króatíu

 Á fimmtudagskvöldið mætti íslenska liðið því króatíska og lauk leiknum með nokkuð auðveldum 7 - 0 sigri. Var þarna um að ræða leik kattarins að músinni og gestirnir sáu aldrei til sólar. Karitas Halldórsdóttir snéri aftur í markið og fór létt með að halda hreinu.

Mörk Íslands skoruðu 7 leikmenn en það voru þær Kolbrún Garðarsdóttir, Sunna Björgvinsdóttir, Hilma Bergsdóttir, Silvía Björgvinsdóttir, Sarah Smiley, Kristín Ingadóttir og Sigrún Árnadóttir. Stoðsendingar áttu Berglind Leifsdóttir, Silvía Björgvinsdóttir, Teresa Snorradóttir, Brynhildur Hjaltisted, Guðrún Viðarsdóttir, Flosrún Jóhannesdóttir, Anna Sonja Ágústsdóttir og Elín Axelsdóttir.

Önnur úrslit á fimmtudaginn voru þau að Ástralía sigraði Úkraínu 9 - 1 og Nýja Sjáland lagði Tyrkland 2 - 1.

Í dag klárast svo mótið með þremur leikjum og í þetta sinn eru tímasetningarnar öðruvísi.  Tyrkir og Króatía hefja leik kl. 10:00, Ástralía og Nýja Sjáland kl. 13:30 og lestina reka svo Ísland og Úkraína kl. 17:00.