Björn afgreiddi Björninn

Myndir: Sigurgeir Haraldsson
Myndir: Sigurgeir Haraldsson


Víkingar eru komnir í 2-1 í einvíginu við Björninn um Íslandsmeistaratitil karla í íshokkí eftir sigur í æsispennandi leik í Skautahöllinni í kvöld þar sem úrslitin réðust á tíunda vítaskoti eftir markalausa framlengingu. Bjarnarmenn loks með mark eftir 70 mínútna markaþurrð.

Víkingar byrjuðu af krafti og skoruðu þrjú fyrstu mörk leiksins, tvö á fyrstu tíu mínútum leiksins og svo það þriðja þegar um fimm mínútur voru eftir af öðrum leikhluta. Auk þess fengu Víkingar sína fyrstu refsingu ekki fyrr en eftir rúmlega 35 mínútna leik, en á sama tíma komu Bjarnarmenn reglulega í boxið.

Undir lok annars leikhluta komust Bjarnarmenn loks á blað fyrir annað en brot, þegar Hjörtur Björnsson skoraði. Skömmu síðar minnkaði Úlfar Jón Andésson muninn í 3-2 þegar einn Víkinganna var í refsiboxinu. Tvisvar í síðari hluta síðasta leikhlutans lentu Víkingar í refsiboxinu og það tók Bjarnarmenn aðeins nokkrar sekúndur að nýta sér liðsmuninn. Daniel Kolar skoraði þriðja markið og Hjörtur Björnsson það fjórða. En Víkingar létu það ekki slá sig út af laginu og Lars Foder jafnaði leikinn þegar um fjórar mínútur voru eftir af leiknum. Gríðarleg spenna var á lokamínútunum og fengu bæði lið ágætis tækifæri, en skoruðu ekki. Því var gripið til framlengingar.

Í framlenginunni var greinilegt að menn voru komnir á síðustu dropana og oft skall hurð nærri hælum við bæði mörkin, en inn vildi pökkurinn ekki. Það var því komið að vítakeppni og óhætt að segja að áhorfendur í Skautahöllinni sem og þeir sem horfðu á leikinn á N4 hafi fengið fyrir allan peninginn.

Vítakeppni markvarðanna
Markverðirnir voru í aðalhlutverki í vítakeppninni og vörðu samtals sex víti. Fyrst varði Ómar Smári frá Zergei Zak, þá varði Snorri Sigurbergsson, markvörður Bjarnarins, frá Andra Má Mikaelssyni og svo Ómar frá Daniel Kolar. Lars Foder skaut í stöngina og staðan enn 0-0 í vítakeppninni. Þá var komið að Úlfari Jóni Andréssyni, sem kom gestunum yfir. Snorri varði síðan frá Jóhanni Má Leifssyni og Ómar varði frá Ólafi Björnssyni. Loks í næstsíðasta víti Víkinga tókst Stefáni Hrafnssyni að jafna. Bæði lið áttu þá eftir eitt víti. Falur Birkir Guðnason misnotaði sitt víti og þá var komið að Birni Má Jakobssyni fyrir Víkinga. Hann lét spennuna ekki trufla sig, vissi hvað þurfti að gera og gerði það - skoraði sigurmark Víkinga úr síðasta víti leiksins.

Einfaldlega frábær skemmtun sem boðið var upp á í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld.


Allir í Egilshöllina!
Fjórði leikur liðanna fer fram í Egilshöllinni mánudagskvöldið 25. mars og hefst kl. 19.00. Stuðningur áhorfenda skipti án efa miklu máli í kvöld og því ástæða til að hvetja stuðningsfólk SA jafnt á höfuðborgarsvæðinu sem og á Akureyri til að mæta á leikinn í Egilshöllinni og halda áfram þar sem frá var horfið í kvöld.

Héldu hreinu í yfir 70 mínútur!
Eftir sjö marka runu í síðasta leik og fyrstu þrjú mörk leiksins í kvöld höfðu Víkingar því skorað tíu mörk í röð hjá Birninum. Það þýðir að Ómar Smári Skúlason markvörður og liðsfélagar hans í Víkingum héldu markinu hreinu í 70 mínútur og 55 sekúndur. Fjórða mark Bjarnarins í leiknum í Egilshöllinni kom eftir 26:26 mínútna leik. Fyrsta mark Bjarnarins í leikmum í kvöld kom eftir 37:21 mínútu. En þá komu reyndar fjögur mörk í röð frá Birninum og staðan breyttist úr 3-0 í 3-4. Kannski verður þessi úrslitakeppni kölluð köflótta úrslitakeppnin.

Mörk/stoðsendingar
Víkingar
Andri Már Mikaelsson 1/1
Jóhann Már Leifsson 1/1
Stefán Hrafnsson 1/0
Lars Foder 1/0
Andri Freyr Sverrisson 0/1
Orri Blöndal 0/1
Refsingar: 10 mínútur
Varin skot: 30 (9+13+4+4)
Vítakeppni
Stefán Hrafnsson 1
Björn Már Jakobsson 1

Björninn
Daniel Kolar 1/1
Hjörtur Björnsson 1/0
Hjörtur Björnsson 1/0
Úlfar Jón Andrésson 1/0
Sergei Zak 0/2
Birkir Árnason 0/1
Ólafur Hrafn Björnsson 0/1
Refsingar: 28 mínútur
Varin skot: 47 (16+9+16+6)