Einn sigur og fjögur töp í Danmörku

Krullulið frá SA keppti um helgina á 25 ára afmælismóti Tårnby krulluklúbbsins í Kaupmannahöfn.

Ekki reyndist Danmerkurferðin frægðarför, að minnsta kosti ekki fyrir afrek á svellinu. Liðið tapaði fyrstu fjórum leikjum sínum en vann lokaleik sinn á mótinu fyrr í dag og endaði í 37. sæti af 44 liðum.

Fyrsti leikurinn var gegn heimaliði úr Tårnby klúbbnum, ungum stúlkum sem kunna sitthvað fyrir sér í íþróttinni og enduðu að lokum í 16. sæti á mótinu. Sá leikur fór 2-6. Skoskt lið frá Edinborg var andstæðingur númer tvö og þrátt fyrir að þar yrðu lokatölur einnig 2-6 var sá leikur í reynd mun jafnari og áttu okkar menn þar meiri möguleika en í fyrsta leiknum. Þriðji leikurinn var gegn ítölsku liði og þann leik hafði íslenska liðið eiginlega í höndum sér, komst í 5-2 en missteig sig illilega í næstsíðustu umferðinni þannig að Ítalirnir skoruðu 5 stig og náðu tveggja stiga forskoti. Í lokin átti íslenska liðið möguleika á að jafna en lokaskotið fór forgörðum. Þriðji leikurinn var síðan gegn kvennaliði frá Svíþjóð, sá leikur tapaðist 10-6. Það var því að duga eða drepast í lokaumferðinni í dag, ekki mikill áhugi hjá liðsmönnum að koma heim án þess að hafa unnið leik. Leikurinn í dag gekk enda betur en hinir leikirnir, úrslitin 6-2 íslenska liðinu í vil. 

Það voru þeir Árni Arason, Haraldur Ingólfsson, Jón Grétar Rögnvaldsson og Jónas Gústafsson sem skipuðu liðið.