EM í krullu: Strákarnir okkar standa sig með prýði

Krullulandsliðið 2011
Krullulandsliðið 2011

Fyrsti leikurinn var gegn Grikkjum á föstudag, en þeir féllu úr B-keppninni í fyrra. Skemmst er frá að segja að okkar menn sigruðu Grikki, 8-6. Góð byrjun sem vakti vonir um áframhaldandi velgengni. En annar leikur liðsins var líklega sá lélegasi til þessa. Þá mættu okkar menn liði Serba og töpuðu 1-6. Þeir voru þó ekki lengi að jafna sig á þessu tapi heldur tóku sig saman í andlitinu og unnu öflugt lið Tyrkja seinna sama dag, 10-4. Greinilegt að íslenska liðið var mætt til Tårnby til að láta finna fyrir sér.

Á sunnudag spilaði liðið tvo leiki. Sá fyrri vannst nokkuð auðveldlega, 10-2 sigur gegn Slóvenum. Síðari leikur sunnudagsins, gegn Rúmenum, varð æsispennandi og þurfti aukaumferð til að fá fram úrslit. Okkar menn jöfnuðu í 6-6 í 8. umferðinni, en Rúmenar náðu að knýja fram sigur með því að skora einn stein í aukaumferðinni.

Þegar þetta er skrifað hefur liðið því unnið  þrjá leiki en tapað tveimur. Pólverjar virðast vera með sterkasta liðið á mótinu, hafa unnið alla sex leiki sína til þessa. Tvö efstu liðin vinna sér inn þátttökurétt í B-keppninni sem fram fer í Moskvu í desember. Og keppnin um 2. sætið í C-keppninni virðist ætla að verða æsispennandi. Serbar, Íslendingar, Tyrkir, Lúxemborgarar og Litháar hafa allir unnið þrjá leiki, Rúmenar tvo, Grikkir einn, en Slóvenar eru án sigurs.

Íslenska liðið sat yfir í morgun, en núna síðdegis (kl. 17.30 að íslenskum tíma) mætum við Lúxemborg. Það er klárlega leikur sem okkar menn eiga að geta unnið. Lúxemborg teflir fram sama liði og í C-keppninni í fyrra, en þá unnu Íslendingar auðveldan sigur á þeim.

Lokaleikir Íslands verða örugglega ekki auðveldir. Fyrst mætir liðið Pólverjum á þriðjudagsmorgni kl. 6.30 að íslenskum tíma og síðan Litháum í lokaleiknum kl. 14. Sigur í kvöld gegn Lúxemborg er því gríðarlega mikilvægur fyrir áframhaldandi baráttu um annað sætið, fyrir átökin á lokadeginum.

Hægt er að fylgjast með skori í leikjunum jafnóðum og þeir eru spilaðir, ásamt því að sjá öll úrslit og upplýsingar um liðin á úrslitavef mótsins - hér.

Beðist er velvirðingar á því að tafir hafa orðið á að setja hér inn fréttir vegna endurnýjunar á útliti og uppsetningu heimasíðunnar. Krullufréttaritari tekur fulla ábyrgð á því.