Emilía Rós Ómarsdóttir er íþróttamaður SA 2015

Emilía með verðlaunin (mynd: Ásgrímur Ágústsson)
Emilía með verðlaunin (mynd: Ásgrímur Ágústsson)

Stjórn Skautafélags Akureyrar hefur valið Emilíu Rós Ómarsdóttur íþróttamann félagsins fyrir árið 2015. Emelía mun því vera ein af þeim íþróttamönnum sem koma til greina við val á íþróttamanni Akureyrar í hófinu sem haldið verður 20. janúar í Menningarhúsinu Hofi.

Emilía Rós Ómarsdóttir er fædd 21 ágúst 1999 og hefur hún æft skauta  frá 7 ára aldri. Emilía Rós hefur staðið sig vel allan sinn skautaferill og er hún búin að vera í Landsliði Íslands síðastliðin 4 tímabil en Emilía Rós keppir í Unglingaflokki A (Junior A).

Emilía Rós var með mjög gott gengi árið 2015. Fyrri hluta árs keppti hún í flokki Stúlknaflokki A (Advance novice A) en í haust fór hún í Unglingaflokk A. Emilía Rós sigraði á öllum mótum ársins á vegum Skautasambands Íslands. Hún var í 1. sæti á RIG og náði besta árangri íslensku skautaranna á Norðurlandamótinu og náði besta árangri í stutta prógraminu sem Ísland hefur náð, 10. sæti. Emilía tók einnig þátt á ISU Hamar Trophy og þar landaði hún 2. sæti sem er besti árangur Íslands. Á Vetrarmóti ÍSS sló Emilía öll Íslandsmet, í stutta og  frjálsa prógraminu og einnig heildarstig. Á sínu fyrsta ári í Junior A hefur hún sigrað öll ÍSS mótin og er Bikarmeistari og Íslandsmeistari. Á Bikarmótinu sló Emilía Íslandsmet í frjálsa prógraminu og svo endurtók hún leikin á Íslandsmótinu og bætti Íslandsmetið í frjálsa og setti nýtt heildarstigamet en hún er fyrsti íslenski skautarinn til að fara yfir 100 stiga múrinn en hún fékk 102,31 stig. Emilía Rós hlaut nafbótina Skautakona ársins 2015 hjá Skautasambandi Íslands.

Emelía var heiðruð af Skautafélaginu í gær þar sem formaður félagsins, Sigurður Sveinn Sigurðsson, veitti henni verðlaunin ásamt farandsbikar og rós. Emilía Rós er glæsilegur fulltrúi og góð fyrirmynd skautaíþróttarinnar og Skautafélag Akureyrar óskar Emilíu til hamingju með nafnbótina.