Skautahlaupskynning á morgun

Skautasamband Íslands hefur hug á að koma á fót æfingum í skautahlaupi á stuttri braut - skautaati eða short track speed skating. Dagskráin hefst á Akureyri laugardaginn 23. apríl með fyrirlestri í fundarsal Skautahallarinnar kl. 14:30 þar sem íþróttin og umhverfi hennar verður kynnt áhugasömum íþróttafélögum ásamt stjórnendum íþróttamála og öðrum áhugasömum. 

Í framhaldi af því verður boðið upp á ístíma þar sem leiðbeinandi mun aðstoða áhugasama og koma með léttar æfingar. 



Íþróttin hentar afar vel þeim sem stunda þolgreinar s.s. hjólreiðar, hjólaskautaat, gönguskíði, línuskauta sem og ís greinarnar listskautar og íshokkí.

Kynning mun fara fram á greininni bæði á Akureyri og í Reykjavík og mun leiðbeinandi aðstoða iðkendur á ísnum á báðum stöðum.

Leiðbeinandi verður Erwin van der Werve. Erwin er hollenskur að uppruna en flutti til Íslands fyrir um 15 árum síðan. Hann er ekki ókunnugur þolíþróttum en auk þess að hafa skautað á langhlaupsskautum frá blautu barnsbeini hefur hann tekið þátt í fjölda keppna í þolíþróttum s.s. járnkarli, landvættum, þríþraut, hjólreiðum og gönguskíðum og er m.a. nýkominn úr Fossavatnsgöngunni. 

Erwin hefur þjálfararéttindi 2 frá ÍSÍ og starfar sem skíðakennari.

Boðið verður upp á sama prógram í Egilshöll í Reykjavík sunnudaginn 24.apríl og hefst fyrirlesturinn 11:30 og ístíminn 13:15.