Fréttabréf LSA fyrir starfsárið 2008-2009

Hér er að finna fréttabréf Listhlaupadeildar Skautafélags Akureyrar fyrir starfsárið 2008-2009. Iðkendur fengu þetta fréttabréf afhent í síðustu viku, þeir sem ekki voru mættir þegar bréfið var afhent geta nálgast það undir lesa meira.

 

Fréttabréf listhlaupadeildar SA vorið 2009

Skautatímabilið er nú senn á enda.  Veturinn hefur gengið mjög vel og voru ótal mörg verkefni á snærum deildarinnar þetta árið.


    Fyrst má nefna æfingabúðirnar í ágúst sem haldnar voru í annað sinn með þessu fyrirkomulagi. Alls voru milli 50 og 60 börn sem tóku þátt og fengum við til okkar 2 gestaþjálfara til að þjálfa ísæfingar ásamt 3 erlendum skauturum. Point dans stúdíó tók að sér að kenna dans og Hólmfríður (Hóffa) tók að sér afísæfingar. Að auki fengum við aðstoð frá fjölmörgum foreldrum sem gerðu okkur kleift að hafa æfingabúðirnar eins glæsilegar og raun bar vitni. Á tímabilinu héldum við einnig skautaskóla fyrir yngri iðkendur, skautanámskeið og opnuðum ísinn fyrir almenning og héldum skautadiskó.


    Iveta gestaþjálfari ásamt börnum sínum tveimur kom til okkar í nokkrar vikur fyrir áramót öllum til ánægju og var árangurinn af heimsókn hennar mjög sýnilegur.


    Hvorki meira né minna en 5 mót voru haldin fyrir jól og stóðu iðkendur SA sig glæsilega á þeim öllum. Við eignuðumst meðal annars Íslandsmeistara í Novice flokki, Helgu Jóhannsdóttur. Upphaflega stóð til að tvö af mótum ÍSS (Skautasambandsins) yrðu á Akureyri en vegna fjárhagsstöðu ÍSS varð úr að annað þeirra var fært suður.


    Helga Jóhannsdóttir öðlaðist keppnisrétt á Junior Grand Prix móti sem haldið var í Sheffield á Englandi og stóð sig mjög vel. Þetta er jafnframt stærsta mót sem nokkur íslenskur skautari hefur tekið þátt í, aðeins 2 aðrir skautarar hafa keppt á Grand Prix og var annar skautarinn frá SA eða hún Audrey Freyja Clarke.


    Jólasýning SA var sett upp rétt fyrir jól og að þessu sinni var ákveðið að tvískipta jólasýningunni, þ.e. að hafa eina sýningu fyrir yngri iðkendur og aðra fyrir eldri iðkendur. Þessi hugmynd kom mjög vel út og sýndu yngri iðkendur sýninguna "Þegar Trölli stal jólunum" og eldri iðkendur sýndu "Jólafantasíu".


    Mótin eftir áramót voru 5 alls auk Norðurlandamótsins þar sem Helga Jóhannsdóttir keppti fyrir hönd Íslands í Malmö í Svíþjóð.


    Öskudagsnammisalan gekk vonum framar sem er öllum þeim sjálfboðaliðum að þakka sem tóku að sér að selja, pakka eða skutla nammi. Þá hefur iðkendum staðið til boða að selja klósettpappír og kerti til að safna fyrir æfingabúðum næsta sumars.


    Þjálfarar hafa sótt sér áframhaldandi menntun hjá ÍSÍ, auk þess sem Hulda Kristjánsdóttir, mótsstjóri félagsins og sjúkraþjálfari hélt fræðslufund fyrir iðkendur. Auk þess sem Hólmfríður Jóhannsdóttir, varaformaður deildarinnar ætlar að halda fræðslufyrirlestur um gildi teygjuæfinga og upphitunar.


    Þemadagar/foreldradagar hjá yngri flokkum (1. og 2. hóp) voru haldnir tvisvar í vetur og fengu góðar undirtektir. Fyrir áramót var haldin hrekkjavökuæfing og eftir áramót var haldin öskudagsæfing. Foreldrafélagið sá um léttar veitingar skauturum að kostnaðarlausu.


    Iðkendur í 1. og 2. hóp hafa aldrei verið fleiri og hefur veturinn gengið mjög vel í þeim hópum, þjálfarar eru mjög ánægðir með hópinn og útséð að þar er að finna marga af skauturum framtíðarinnar.


    Eftir áramót fór Helga Margrét yfirþjálfari ásamt aðstoðarþjálfurunum Ólöfu Maríu og Gyðu Dröfn af stað með svo kallaðan stjörnuhóp innan 1. og 2. hóps. Sá hópur var settur af stað til að brúa bilið milli 1.og 2. hóps og 3. hóps. Hópurinn samanstendur af 10-12 mjög ungum og efnilegum skauturum þar sem unnið er að því að undirbúa þá til að færast upp um hóp næsta vetur ef áhugi er fyrir hendi.


    Nú á vordögum eru nokkur verkefni hjá deildinni. Framundan er meðal annars vorsýningin okkar sem haldin verður sunnudaginn 26. apríl hjá öllum hópum. Æfingar fyrir vorsýninguna hefjast í næstu viku og koma frekari upplýsingar varðandi fyrirkomlagið þá. Grunnpróf ÍSS (basic test) verða haldin í Skautahöllinni okkar föstudaginn 24. apríl og munu iðkendur sem stefna á að keppa í keppnisflokkum 8 ára og yngri A og B, 10 ára og yngri A og B og 12 ára og yngri A og B þreyta próf þennan dag en Helga Margrét yfirþjálfari ásamt fulltrúa úr stjórn mun kalla saman foreldra þessara barna sem koma til greina á stuttan fund á næstu dögum. Einnig er hafinn undirbúningur fyrir hið árlega skautamaraþon þar sem allir skautarar í 3.-7. hóp skauta í sólarhring til að safna fyrir sumaræfingabúðum deildarinnar. Maraþonið verður að öllum líkindum í byrjun maí. Hóffa mun bjóða upp á tíma á Bjargi fyrir 4.-7. hóp í byrjun maí eða eftir að ísinn verður tekinn af. Samhliða því mun hún halda fræðslufyrirlestur sem er liður í undirbúningi fyrir æfingar sumarsins.


    Páska"fríið" nálgast og er búið að birta æfingaplan fyrir lengra komna iðkendur á heimsíðunni okkar. Iðkendur í 1. og 2. hóp verða í páskafríi frá og með 4. apríl og hefjast svo æfingar aftur miðvikudaginn 15. apríl.


    A og B iðkendur þurfa að fara að huga að næsta vetri, þ.e. nýjum dansi/prógrammi, nýju lagi, nýjum skautum og nýjum kjólum/samfestingum. Helga Margrét yfirþjálfari mun ræða við þá sem þurfa að fara að huga að þessum hlutum á næstu dögum. Allir A skautarar og eldri B skautarar sem vilja ný prógröm fyrir næsta vetur skulu huga að því fyrir vorið. Hægt er að hefja vinnu að nýju prógrammi í páskafríinu svo það verði klárt fyrir sumarið.


    Á heimasíðunni okkar (www.sasport.is/skautar) er að finna ýmsar upplýsingar varðandi hvað sé í boði í sumar. Í boði eru hvorki meira né minna en 3 æfingabúðir auk sumarafísæfinga sem Helga Margrét og Audrey Freyja munu bjóða upp á í sumar. Það er mjög mikilvægt að skautarar skauti í sumar þar sem skautatímabilið okkar er styttra en gengur og gerist annars staðar, þó sérstaklega fyrir lengra komna skautara. Draumaplanið væri ef allir A og B skautarar gætu skautað í 2 af þeim æfingabúðum sem í boði verða ☺ . Hafið endilega samband við Helgu Margréti yfirþjálfara með tölvupósti sem fyrst bæði til að fá upplýsingar og líka svo að hægt sé að skrá iðkanda í þær búðir sem áhugi er á, skráningar fyrir Slóvakíubúðirnar þurfa að berast í apríl og líka fyrir æfingabúðir ÍSS.


    Munið svo að vera dugleg að kíkja á heimsíðuna okkar! Við sendum líka þeim sem eru með skráð tölvupóstfang hjá okkur póst um það mikilvægasta hverju sinni. Þeir sem ekki fá póst frá okkur er bent á að senda okkur tölvupóst á skautar@gmail.com með nafni foreldris/foreldra, iðkanda og í hvaða hóp viðkomandi æfir.


    Gleðilega páska!                                 Stjórn og þjálfarar