Heiðursfélagi, Ingólfur Ármannsson, fellur frá.

Ingólfur vígir nýja vélfrysta svæðið við Krókeyri.
Ingólfur vígir nýja vélfrysta svæðið við Krókeyri.

Ingólfur lést þann 1. september á 83. aldursári og var jarðsunginn frá Akureyrarkirju föstudaginn s.l. 

Ingólfur fæddist í Innbænum þann 22. desember 1936 – níu dögum áður en faðir hans fór á fund á nýársdag þar sem Skautafélag Akureyrar var stofnað. Hann lærði kornungur á skauta undir handleiðslu Stefaníu systur sinnar. Ingólfur var fæddur og uppalinn í Aðalstræti 62, þar sem aðstæður voru þannig  á veturna að ef systkinin ætluðu á skauta þá var farið út um forstofudyrnar og yfir götuna, þar sem skautasvellið beið, en ef farið var á skíði þá var farið út bakdyramegin – þar sem brekkurnar biðu. Lífið snerist um skauta og skíði og Ingólfur keppti á þó nokkrum mótum árin 1953-61 og fór ásamt nokkrum félögum Í S.A. til æfinga í Lillehammer veturinn 1956.

Ingólfur var tvisvar formaður S.A., árin 1959-60 og 1967-70, auk þess að koma að ýmsum öðrum störfum og verkefnum fyrir félagið.  Hann var formaður svæðisnefndar þegar vélfrysta svæðið var sett upp á Krókeyri (þar sem við erum enn) og vígt var í janúar 1988.  Hann var lykilmaður í undirbúningsstarfi fyrir vetraríþróttahátíð 1990 og sá um heimsókn rússneskra unglinga, þeirra Marinu Anissina og Ilija Averbukh, sem þá voru heimsmeistarar unglinga og áttu, sitt í hvoru lagi, eftir að vinna tugi verðlauna á Ólympíuleikum, heimsmeistaramótum og Evrópumótum. Í kjölfarið tók hann við formennsku í listhlaupsdeild og var potturinn og pannan  í skipulagi deildarinnar allt þar til að skautasvæðið varð yfirbyggt. Ingólfur var gerður að heiðursfélaga árið 1997 á 60 ára afmæli félagsins.

Við í Skautafélaginu kveðjum Ingólf Ármannsson með þökk fyrir hans mikla framlag til félagsins í gegnum árin og vottum fjölskyldu hans og vinum, okkar dýpstu samúð.