Ice Cup - leikreglur og tímasetningar

Keppnisfyrirkomulag á Ice Cup verður svipað og undanfarin ár, með örfáum breytingum þó, vonanti til batnaðar. Keppendur eru beðnir um að kynna sér reglurnar vel. Tólf lið taka þátt.

Mótsnefnd Ice Cup hefur ákveðið keppnisfyrirkomulag og leikreglur fyrir Ice Cup þetta árið. Keppnin verður með svipuðu sniði og undanfarin ár en gerðar eru nokkrar breytingar. Helstu breytingar eru þær að nú verða allir leikir í undankeppninni 7 umferðir (ekki hægt að gefa leik). Undanfarin ár höfum við haft tíma og klárað umferð og aðra til eftir að hann rennur út. Á hverju ári hafa komið upp atvik þar sem rætt hefur verið um að of hægur leikur hafi ef til vill komið niður á einhverjum liðum þegar til "uppgjörs" á unnum umferðum og skoruðum steinum hefur komið. Við þessu er brugðist með því að allir leikir skulu nú vera 7 umferðir. nema úrslitaleikir um verðlaun sem verða 8 umferðir. Engu að síður verður notast við klukkuna en hún er eingöngu til viðmiðunar fyrir liðin, sbr. útskýringu í 3. grein hér að neðan. Leiktímarnir breytast einnig aðeins frá því sem við erum vön, þ.e. hvenær leikir hefjast. 

Reglur mótsins verða þessar:

 1.

Mótið samanstendur af fimm umferðum sem leiknar eru samkvæmt svokölluðu Schenkel-kerfi, auk úrslitaleikja um verðlaun.  Dregið er til fyrstu umferðar (A-B, C-D o.s.frv.) en eftir hverja umferð er liðunum raðað eftir stigum (síðan unnum umferðum, þá skoruðum steinum). Tvö stig fást fyrir sigur, eitt fyrir jafntefli. Í hverri umferð er leitast við að raða saman í leiki þannig að lið leiki gegn andstæðingi sem er sem nálægt því í röðinni eftir því sem kostur er. Lið leikur ekki tvisvar gegn sama andstæðingi (úrslitaleikir frátaldir).  

 

2.

Eftir að öll liðin hafa leikið þrjá leiki er þeim skipt í tvær deildir, A og B, með 6 liðum í hvorri deild og leika eftir það tvo leiki við lið innan sinnar deildar. því loknu leika tvö efstu liðin í A-deild um gullverðlaun, tvö þau næstu um bronsverðlaun og tvö efstu liðin í B-deild um sigurverðlaun í B-deild. Ef forsendur fyrir röðun liða (stig, unnar umferðir, skoraðir steinar) duga ekki til að ákvarða hvaða lið leika til úrslita um verðlaun skal fara fram skotkeppni milli viðkomandi liða. Þar renna fjórir úr hvoru liði til skiptis steini að miðju hrings. Fjarlægð frá miðju hrings að steini er mæld og lögð saman fyrir allt liðið. Það lið sem þannig fær lægri samtölu telst ofar í röðinni.

 

3.

Í almennu keppninni skulu leiknar 7 umferðir í öllum leikjunum (EKKI heimilt að gefa leik). Til viðmiðunar er klukkan í Skautahöllinni stillt á 105 mínútur við upphaf leiks og telur niður. Ef bæði lið spila á eðlilegum hraða ætti leik að vera lokið áður en tíminn rennur út. Almennt viðmið er að ekki taki lengri tíma en 15 mínútur að meðaltali að leika hverja umferð, þ.e. að hvort lið um sig hafi að meðaltali 7,5 mínútur til umhugsunar og leiks.  Krullufólk er hvatt til að haga leik sínum þannig að ekki komi til óþarfa tafa (til dæmis ef leikmenn eru ekki tilbúnir að senda sinn stein þegar röðin kemur að þeim) og ekki sé tekinn óhóflega langur tími til umhugsunar. Úrslitaleikir um sæti eru 8 umferðir (heimilt að gefa leik fyrr).

 

4.

Hvert lið leikur tvo leiki á fimmtudegi (30. apríl), tvo leiki á föstudegi (1. maí) og einn á laugardegi (2. maí). Umferðir hefjast kl. 11.00, 14.30, 16.30 og 19.00 á fimmtudag, kl. 9.00, 11.30, 14.30 og 17.00 á föstudag og kl. 8.30 og 11.00 á laugardag. Úrslitaleikir hefjast kl. 14.00 á laugardag. Upphitun á að hefjast 10 mínútum fyrir leik og er það undir liðunum komið hverju sinni hvernig henni er háttað. 

 

5.

Ef lið mætir ekki til leiks með minnst þrjá leikmenn þegar tíu mínútur eru liðnar á klukkunni telst það hafa tapað leiknum. Sigurlið fær þá skráð 2 stig, 4 umferðir og 4 steina.

 

6.

Að öðru leyti gilda reglur Alþjóða krullusambandsins, WCF, eftir því sem við á.Krullufólk er hvatt til að kynna sér þær á vef sambandsins - http://www.worldcurling.org/rules.html.